Það verður nóg um að vera á Ströndum um helgina. Á morgun, þjóðhátíðardaginn 17. júní, verða hátíðahöld á Hólmavík með skrúðgöngu, andlitsmálun, sundlaugarsprelli og fleiru. Í Sauðfjársetrinu á Sævangi verður veglegt kaffihlaðborð og á Drangsnesi hefst sumaropnun sundlaugarinnar kl. 10:00. Kaffiveitingar verða einnig á boðstólum í Hótel Djúpavík og þar verður sögusýningin opin. Á sunnudaginn fá blómaunnendur eitthvað fyrir sinn snúð á Degi hinna villtu blóma og Sundhani siglir að venju út í Grímsey. Fótboltafíklar geta svo setið á Café Riis alla helgina og fylgst með HM.
Laugardagur 17. júní
Kl. 11:00 – Sundkeppni í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Keppt í 100 metra sundi með frjálsri aðferð. Allir á móti öllum. Skráning á staðnum.
Kl. 13:30 – Blöðrusala, andlitsmálun og fleira í Kirkjuhvamminum á Hólmavík.
Kl. 14:00 – Skrúðganga á Hólmavík frá Hvamminum í Íþróttamiðstöðina. Hefðbundin dagskrá, hátíðarræða, fjallkona, sundgrín og tónlistaratriði.
Kl. 14:00-18:00 – Kaffihlaðborð á Sauðfjársetrinu í Sævangi í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní. Verð 1200.- á mann 13 ára og eldri. Sögusýning og handverksbúð opin alla daga.
Kl. 15:00-18:00 – Síðasti opnunardagur sýningar á handverksmunum Signýjar Sigmundsdóttur frá Einfætingsgili í Bitru. Sýningin er uppi í Steinhúsinu á Hólmavík.
Yfir daginn – Kaffiveitingar og þjóðhátíðarstemmning á Hótel Djúpavík og sögusýningin í verksmiðjunni opin upp á gátt.
Sunnudagur 18. júní
Kl. 13:00 – Dagur hinna villtu blóma. Gönguferð með plöntuskoðun á vegum Sauðfjárseturs á Ströndum og Flóruvina. Gengið verður frá Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík upp í Kálfanes. Þar verða ýmsar jurtir greindar og skoðaðar og sérstaklega spekúlerað í því hversu vel þær henta til að ala sauðfé. Bragðgæði stóru-brennunetlunnar í bæjarhólnum á Kálfanesi verða hins vegar ekki könnuð, en sagt frá þeirri merkisjurt. Leiðsögumenn eru Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson. Nánari upplýsingar um dag hinna villtu blóma má finna á vefsíðunni http://www.floraislands.is/blomadagur.htm.
Kl. 13:00 – Ársþing HSS 2006 verður haldið á Borðeyri sunnudaginn 18. júní. Þingið hefst kl. 13:00 og verður í Kaffihúsi Lækjargarðs ehf sem er í verslunarhúsnæðinu á Borðeyri. Öll aðildarfélög HSS er hvött til að senda fulltrúa á þingið. Gestir koma á þingið frá ÍSÍ, UMFÍ og e.t.v. fleiri aðilum.
Kl. 14:00 – Sigling í Grímsey – áætlunarferð með Sundhana frá Drangsnesi. Boðið er upp á bátsferð í Grímsey frá Drangsnesi sem er einungis 10 mínútna sigling. Gengið er um eyjuna með leiðsögn þar sem bæði sögu eyjunnar og fuglalífi er sérstakur gaumur gefinn. Ef veður er gott er siglt hringinn í kringum eyjuna að göngu lokinni og færi dýft í sjó. Ferðin tekur í allt 3-4 tíma, verð kr. 3.500.-
Miðvikudagur 21. júní
Kl. 18:00 – Polla- og pæjumót HSS í knattspyrnu. Keppt verður í tveim flokkum, 10 ára og yngri og 11-14 ára. Raðað verður í lið á staðnum. Keppt á Skeljavíkurvelli.
…svo eru hinar stórskemmtilegu og vönduðu sýningar Strandagaldurs, Galdrasafnið á Hólmavík og Kotbýli kuklarans opnar alla dagana til kl. 18:00.