Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa nú fengið bronsmerki frá vottunarsamtökunum EarthCheck. Unnið hefur verið að umhverfisvottun Vestfjarða á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga frá árinu 2010, en þá var samþykkt tillaga á fjórðungsþingi á Hólmavík um að sækja um slíka vottun. Áður höfðu Ferðamálasamtök Vestfjarða gert umhverfisvottun allra Vestfjarða að baráttu- og stefnumáli sínu og m.a. haldið ráðstefnu um málið á Núpi í Dýrafirði. Sveitarfélögin standa saman að stefnu um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti og fylgjast með þróun mála í landsfjórðungnum, í samræmi við margvíslegra mælikvarða á árangur í samvinnu við vottunarsamtökin. Á grundvelli verkefnisins vinna sveitarfélögin síðan saman að margvíslegum umbótum og framförum í umhverfismálum. Áður hafa sveitarfélög á Snæfellsnesi sameinast um vinnu að umhverfisvottun og eru nú með gullmerki EarthCheck.
Fræðast má um umhverfisvottun EarthCheck á vefsíðu samtakanna http://www.earthcheck.org/. Vefur Fjórðungssambands Vestfirðinga er á slóðinni www.vestfirdir.is.