21/11/2024

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst

Eins og kunnugt er fara almennar kosningar til sveitarstjórna fram í vor, þann 27. maí. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst í dag, 3. apríl, og hefur sérstakur vefur um kosningarnar verið opnaður á vef Félagsmálaráðuneytis á slóðinni www.kosningar.is. Í Bæjarhreppi, Kaldrananeshreppi og Árneshreppi var síðast kosið um einstaklinga í hreppsnefndir (svokölluð óhlutbundin kosning), en listum hefur verið stillt upp í Hólmavíkurhreppi. Síðast voru tveir listar í framboði í Hólmavíkurhreppi. Ritstjórn vefjarins strandir.saudfjarsetur.is hefur ekkert frétt af slíkum listum eða öðrum framboðum þetta árið, þannig að menn eru alla vega ekki farnir að kynna sig og stefnumál sín opinberlega.  

Frestur til að skila framboðslistum til yfirkjörstjórnar í hverju sveitarfélagi er til kl. 12 á hádegi laugardaginn 6. maí 2006. Hreppsnefndarmenn sem hyggjast skorast undan endurkjöri skulu tilkynna þá ákvörðun til yfirkjörstjórnar fyrir lok framboðsfrests. Þeir sem hyggja á framboð geta sótt leiðbeiningar um hvernig skal standa að málum á kosningavef Félagsmálaráðuneytis www.kosningar.is.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is mun taka við og birta aðsendar greinar frá þeim sem í framboði verða í kosningunum hér á Ströndum og vonast eftir líflegri umræðu um margvísleg málefni.