Á sama tíma og ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is hefur verið afar upptekin við önnur störf og kannski ekki getað sinnt vefnum alveg eins vel og hann og lesendur eiga skilið, hefur heimsóknum fjölgað til muna. Að jafnaði fékk vefurinn 1.547 heimsóknir á dag í marsmánuði og flettu þessir gestir vefnum 12.159 sinnum á hverjum degi að meðaltali. Samtals eru heimsóknir í mars 47.968. Á bak við þennan heimsóknafjölda eru um það bil þúsund mismunandi tölvur á degi hverjum, þannig að ljóst er að ýmsir skoða vefinn oftar en einu sinni á dag. Ritstjórn er hin ánægðasta með heimsóknafjöldann og þakkar bæði lesendum og þeim sem senda til okkar efni og fréttir kærlega fyrir samstarfið.
Í undirbúningi og vinnslu er frekari þróun á ýmsum þáttum vefjarins og einnig verður lögð aukin áhersla á kynningarstarf. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is mun taka virkan þátt í sameiginlegri kynningu Strandamanna á mannlífi, ferðaþjónustu og atvinnulífi á stórsýningunni Perlan Vestfirðir sem haldin verður í Reykjavík dagana 5.-7. maí næstkomandi.