22/11/2024

Hólmavík vettvangur glæpasögu

Spennusagan Þriðja táknið, sem er frumraun rithöfundarins Yrsu Sigurðardóttur á sviði glæpasagna, er í öðru sæti á metsölulista síðustu viku. Galdrasýning á Ströndum kemur talsvert við sögu í bókinni en upphaf sögunnar er að lík af ungum manni finnst í Reykjavík haustið 2005 og hefur torkennilegt tákn verið rist á það. Fjölskylda hins látna í Þýskalandi er ósátt við rannsókn lögreglunnar á morðinu og fær ungan íslenskan lögmann, Þóru Guðmundsdóttur, til að kynna sér málavöxtu upp á eigin spýtur. Inn í málið blandast áköf leit að fornu bréfi og alræmdu riti frá miðöldum ásamt galdrafárinu á Íslandi. Og áður en Þóra veit af hefur hún sogast inn í veröld sem hún vissi ekki að væri til.

Bókin hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og er væntanleg á sextán tungumálum í öllum byggðum heimsálfum veraldar.

Úr umsögnum um Þriðja táknið:

„…skilar lesanda vel unninni og hugsaðri glæpasögu.“ — Páll Baldvin Baldvinsson, DV

„Fersk rödd … Hröð atburðarás og hressilegur stíll.“ — Katrín Jakobsdóttir, gagnrýnandi

„Eitthvað alveg sérstakt“ — Suzie Doore, útgáfustjóri Hodder og Staughton í Bretlandi

„Allt er þetta vel gert …“ — Halldór Guðmundsson, Fréttablaðinu

„Fléttan er spennandi …“ — Jón Yngvi Jóhannsson, Kastljósi