Reimar Vilmundarson frá Bolungarvík og fyrirtækið Freydís sf. sem sigldi í fyrra áætlunarferðir norður á Hornstrandir frá Norðurfirði á Ströndum á bátnum Sædísi ÍS-67, hefur nú gefið út áætlun fyrir sumarið 2006. Bæði er fjölgað ferðum í hverri viku og tímabilið sem áætlun er í gangi lengt. Ferðirnar voru mjög vinsælar í fyrrasumar og farnar fjölmargar aukaferðir, en um slíkar ferðir verður að ræða sérstaklega við Reimar. Nýr bátur er nú í smíðum fyrir Reimar hjá Seiglu ehf í Reykjavík. Þar er á ferðinni rúmlega 12 metra langur trefjaplastbátur sem á að geta tekið allt að 30 manns í sæti, yfirbyggður að mestu leyti. Með tilkomu þessa nýja báts ætti að skapast góður möguleiki á dagsferðum frá Norðurfirði í útsýnisferð að Hornbjargi og til baka.
Áætlunin hjá Freydísi sf. er sem hér segir:
Sædís ÍS-67 – Áætlun sumarið 2006
Mánudagar
Siglt frá Norðurfirði til Hornvíkur og til baka.
Miðvikudagar
Siglt frá Norðurfirði til Reykjafjarðar og til baka.
Föstudagar
Siglt frá Norðurfirði til Hornvíkur og til baka.
Komið er við á Dröngum, Reykjafirði, Bolungavík og Látravík eftir sem við á og veður leyfir. Brottför í ferðirnar er um kl. 11:00 frá Norðurfirði, nema um annað sé samið. Áætlunarsiglingarnar hefjast 28. júní 2006 og standa til 9. ágúst 2006. Bókunarlágmark er 6 manns. Veður getur haft áhrif á ferðir. Freydís sf. áskilur sér rétt til að fella niður ferðir eða hluta ferða sem ekki er bókað í.
Tekið er á móti pöntunum og beiðnum um aukaferðir í síma 893-6926 og tölvupósti freydissf@simnet.is.
Myndir úr ferðum Sædísar