22/11/2024

Héraðsnefnd fundar á laugardag

Héraðsnefnd Strandasýslu fundar á Café Riis á Hólmavík laugardaginn 26. nóvember næstkomandi. Héraðsnefndin er samtök sveitarfélaga í Strandasýslu og hefur með höndum ýmis verkefni sem sveitarfélögin hafa sameinast um, ýmist ein sér eða í samvinnu við aðra. Þar má meðal annars nefna rekstur og fjármögnun Upplýsingamiðstöðvar, Héraðsbókasafns og Byggðasafns, nefndin rekur einnig barnaverndarnefnd og greiðir kostnað vegna almannavarna. Þá veitir Héraðsnefndin fé til menningar- og félagsmála og hefur á liðnum árum stutt við rannsóknir og nýsköpun í Strandasýslu. Héraðsnefnd fjallar um atvinnu-, samgöngu-, menningar- og félagsmál og hver þau mál önnur sem varða hag íbúa í Strandasýslu.


Í Héraðsnefndinni er einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi á Ströndum, nema Hólmavíkurhreppur hefur tvo fulltrúa. Hana skipa nú Gunnsteinn Gíslason Bergistanga, Jenný Jensdóttir Drangsnesi, Haraldur V.A. Jónsson Hólmavík sem er oddviti Héraðsnefndar, Eysteinn Gunnarsson Hólmavík, Sigurður Jónsson Stóra-Fjarðarhorni og Ragnar Pálmason Kollsá. Þeir sem óska eftir að koma erindum til nefndarinnar fyrir fundinn á laugardaginn þurfa að koma þeim til Matthíasar Lýðssonar í Húsavík, starfsmanns nefndarinnar, í síðasta lagi föstudaginn 25. nóvember. Netfang hjá Mattíasi er husavik@simnet.is.