22/11/2024

Áning 2006 komin út

Út er komið ferðaþjónusturitið Áning 2006, en þessi bæklingur er sá mest notaði af íslenskum og erlendum ferðamönnum yfir sumartímann ásamt Around Iceland sem í íslenskri útgáfu heitir Á ferð um Ísland. Útgáfufyrirtækið Heimur gefur báða þessa bæklinga út. Í Áningu eru upplýsingar um gististaði, sundlaugar og tjaldsvæði sem kaupa auglýsingu í bæklingnum, opnunartíma þeirra og fleira slíkt. Ekki kaupa allir auglýsingu í Áningu, þannig að ekki er um tæmandi upplýsingarit að ræða eins og Á ferð um Ísland.

Í Áningu að þessu sinni eru auglýstir eftirfarandi gististaðir á Ströndum: Gistiheimilið Bergistangi í Norðurfirði, Finnbogastaðaskóli, Hótel Djúpavík, Gistiheimilið Borgarbraut á Hólmavík, Ferðaþjónustan Kirkjuból við Steingrímsfjörð, Snartartunga í Bitrufirði og Gistihúsið Brú í Hrútafirði. Þessir staðir eru opnir allt árið, nema Finnbogastaðaskóli og Snartartunga sem auglýsa sumaropnun.

Af sundlaugum á Ströndum eru auglýstar Gvendarlaug hins góða í Bjarnarfirði sem verður opin frá 10-21 alla daga næsta sumar, Sundlaugin Drangsnesi sem verður opin 9-21 alla daga næsta sumar og Íþróttamiðstöð Hólmavíkurhrepps sem verður opin 7-21 mán-fös og 10-17 lau-sun.

Tjaldsvæði sem auglýst eru í Áningu eru í Norðurfirði við Ferðafélagshúsið, á Drangsnesi og Hólmavík.