22/11/2024

Tilboð í sérleyfi opnuð

Í dag voru opnuð tilboð í áætlunarakstur á hópferðabílum á sérleyfisleiðum á landinu fyrir árin 2006-8. Þar á meðal eru tilboð í leiðir á þjónustusvæði sem kallað er Vestfirðir og er áætlun á milli Hólmavíkur og Ísafjarðar yfir sumarið þar á meðal, þrjár ferðir í viku. Einnig eru í pakkanum leiðirnar Brjánslækur-Patreksfjörður-Ísafjörður og Ísafjörður-Súðavík. Lægsta boð í þessar ferðir áttu Stjörnubílar á Ísafirði eða rúmar 7 milljónir, en áætlun gerði ráð fyrir 7,7 milljónum. Næstlægst var tilboð frá F&S Hópferðabílum á Þingeyri upp á 8,8 milljónir, en önnur tilboð voru töluvert hærri.

Leiðin frá Brú til Hólmavíkur fellur hins vegar undir þjónustusvæði sem heitir Vesturland og Norðurland og sama gildir um áætlun 1x í viku milli Hólmavíkur og Drangsness. Reiknað er með ferðum 3x í viku frá Brú til Hólmavíkur yfir sumarið og 1x í viku yfir veturinn. Einungis var hægt að bjóða í þetta svæði í heilu lagi. Lægsta boð í allar leiðir á þessu þjónustusvæði áttu Hópferðamiðstöðin og Vestfjarðaleið eða 230,1 milljón. Aðrir bjóðendur voru Bílar og fólk ehf með 261,2 milljónir og SBA Norðurleið með 309,2 milljónir. Í áætlun fyrir þetta svæði var gert ráð fyrir 211,4 milljónum.