21/11/2024

Styttist í ADSL tengingu á Hólmavík

ADSL samband verður að öllum líkindum sett upp á Hólmavík í nóvember eða desember að sögn Evu Magnúsdóttur upplýsingafulltrúa Símans, en hún býst ekki við að stafræna sjónvarpið komi um leið en segist ætla að skoða það mál betur áður en hún gefur endanlegt svar um það. ADSL kerfi Símans nær til  93% landsmanna og fjölmargra bæjarfélaga á landinu.  Ekki kom fram í svari hennar hvort aðrir aðilar en þeir sem skuldbundu sig að ADSL áskriftinni geti gerst áskrifendur um leið og ADSL sambandið kemst á. Vel á fjórða tug aðila á Hólmavík skuldbundu sig til áskriftar í byrjun árs.


Viðbrögð viðskiptavina Símans við sjónvarpi Símans um ADSL kerfin hafa farið fram úr björtustu vonum að sögn Evu en Síminn hefur verið með tugi starfsmanna í uppsetningum í júlí, ágúst og september, þar sem allir vildu fá þjónustuna áður en enski boltinn hæfist og enn hefur fólki verið fjölgað. "Uppsetningar hafa gengið vel en fjöldi umsækjenda eykst jafnt og þétt", segir Eva Magnúsdóttir.