Hér er birtur á strandir.saudfjarsetur.is hluti af langri og skemmtilegri grein þar sem segir af ferðalagi um Strandir. Greinin heitir För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903 og er merkt P.Z. Hún birtist í Þjóðólfi árið 1904. Sá hluti sem snýr að Ströndum er í tölublöðum 1-4, en sagt er frá byggð og búendum í Dölum í tbl. 7, 10, 13, 25-26 og 32.
Tvennt kemur fram í greininni sem upplýsir að Pétur Zóphóníasson (1879-1946), ættfræðingur og hagstofuritari, sé sá sem skammstöfunin P.Z. stendur fyrir. Annars vegar kemur í ljós að hann er á yfirreið um sýslurnar á vegum Góðtemplara og hefur það að markmiði að stofna stúkur og bindindisfélög. Hitt er færni hans í skák, en Pétur var stofnandi Taflfélags Reykjavíkur 1901 og margfaldur skákmeistari Íslands. Myndin af honum er fengin af vef félagsins.
För um Dala- og Strandasýslur haustið 1903.
Eptir P. Z.
I.
Það er nú orðinn siður, að rita ferðasögur, þegar eitthvað er ferðast, og vil eg reyna að fylgja sið þessum, þótt það sé fremur af vilja en mætti. Að rekja dagleiðir á ferðinni dettur mér ekki í hug, bæði voru þær opt stuttar og svo farið æði krókótt. Það mundi því aðeins verða til þess, að þreyta hvern mann.
Þegar menn lesa þessa ferðasögu, verða menn að gæta þess, að eigi hef eg vit á búskap, verða menn því að taka viljann fyrir verkið, þegar eg minnist á hann, svo er og um fleira, sem verður drepið lítilfjörlega á.
Eg var að flækjast um þessar sýslur frá því seinast í september (24.) og þar til í desember (10.), og ætti því að hafa haft gott tækifæri til þess að kynnast háttum manna. Í báðum sýslunum eru íbúarnir hinir gestrisnustu. Nyrzta sveitin í Strandasýslu heitir
V í k u r s v e i t
einu nafni, til hennar telst Byrgisvík, Reykjarfjörður, Trékyllisvík, Norðurfjörður, Ingólfsfjörður, Ófeigsfjörður, Drangavík, Skjaldabjarnarvík o.fl. firðir. Dr. Þorvaldur Thoroddsen telur sveit þessa með Hornströndum, en ekki gera íbúarnir það.
Víkursveitin er mjög vogskorin, víða langt á milli bæja í henni, einkum nyrzt, og allar samgöngur á landi mega teljast erfiðar. Þó er þéttbýlt i Trékyllisvíkinni og stutt að Árnesi prestssetrinu, frá mörgum bæjum, bæði í Trékyllisvík, þar sem Árnes er og frá Reykjar-, Norður- og Ingólfsfirði. Árnes er einnig miðpunktur sveitarinnar, þar er kirkjan, þingstaðurinn og presturinn.
Sumarið í sumar var erfitt hjá Víkverjum. Þegar eg kom þangað 11. okt. var alstaðar meira og minna af heyi úti, og á 2 bæjum í Trékyllisvíkinni var ekki búið að ná inn einu einasta heystrái, og á einum bæ (Árnesi) aðeins tæpum 10 hestum af töðu.
Daginn eptir var mikið hvassveður og þoka niður í miðjar fjallahlíðar, var þá ofurlítið þurkað úr heyinu, en sumstaðar var það tekið inn eins og það var í lönunum. Var heyið auðvitað mjög skemmt, líkast góðum rekjum á vordegi. Þeir söltuðu heyið mjög mikið. Náttúrlega náðist ekki allt heyið þennan dag, einkum vegna þess, að það fór að rigna um miðdegi, og rigningin óx alltaf jafnt og þétt. Rigningin hélzt þar til að morgni 15. okt., var þá hvassviðri, en þann dag rigndi ekkert. Var þá aptur átt við hey og nokkuð hirt um kveldið, en alstaðar var þó nokkuð úti af heyi, og næsta dag var þoka og súld. Í Reykjarfirðinum og nesinu milli Víkurinnar og Reykjarfjarðarins var strax mikið betra. Þar var öll taða komin inn, er eg kom, raunar bæði hrakin og skemmd. En fyrir norðan Víkina var svipað, og eitthvað af töðu var borið í sjóinn í Ingólfsfirði. Þegar gætt er að því, hvernig sumarið í sumar var þar, heyleysi, eldiviðarleysi og fiskileysi, er hrein furða, hve vel lá á Víkverjum, hvorki heyrðist mögl né barlómur, aðeins: »annað eins sumar má ekki koma aptur«, og mun enginn undrast, þótt Víkverjar segi svo. Eg held að hver sem hefði ferðazt þar um, hefði hlotið að bera mikla virðing fyrir þeim fyrir það, hve glaðir þeir voru og treystu á betri tíma. Engum datt í hug, að flytja af landi burt, enda gera Víkverjar lítið af því. Þeir flytja yfirleitt lítið úr sveitinni, enda er sveitin hin allra bezta, þegar vel árar. Fiskafli er mjög mikill og hákarlsafli líka og stunda þeir hvorttveggja af kappi. Á hverjum bæ er hákarlshjallur. Á nokkrum bæjum þar er mikið æðarvarp, og sumstaðar mikil selveiði og fjaran er hvít af rekavið. Eldiviðarleysið gerir þeim því minna til. Landbúnaður er fremur lítill hjá þeim, en féð er framúrskarandi vænt. Það er því ekki að furða, þótt þeim vegni vel, þegar vel árar, en því miður er óþurkasamt þar og að mörgu leyti erfitt.
Það sem mér datt fyrst í hug, þegar eg sá töðuna liggja flata og í lönum á túninu í Árnesi var: því er ekki reynt að gera súrhey? Mér var sagt, að enginn hefði reynt það nú, en áður hefði það verið reynt, en misheppnazt. Eg lít svo á, að það sé bein nauðsyn í sveitum, þar sem er jafn óþurkasamt og þar, að fólk kunni að gera súrhey eða sæthey. Eptir því, er mér hefur virzt af ritgerð hr. Torfa skólastj. Bjarnasonar í Ólafsdal í Búnaðarritinu, svo og ritgerð Eggerts Finnssonar á Meðalfelli, er súrheysverkun fremur vandalítil, aðeins að þunginn sé nógu mikill. Mér finnst, að Landbúnaðarfélagið ætti að gangast fyrir því, og búnaðarskólarnir ættu að kenna þá heyverkun. Mér hefur verið sagt, að súrheysverkun sé nú kennd á Hólum, og er það vel farið, en í fyrra kvað hún ekki hafa verið kennd. Hve mikið tjón Norðlendingar hafa haft af því, er víst ekki gott að segja, en mikið hefur það verið, svo margir bændur og bændasynir lærðu þar.
Þegar farið er norður í Víkursveit liggur leiðin yfir Trékyllisheiði. Heiðin fremur há (1530 fet) og illviðrasöm, einkum norðan til. Þegar norður er farið má fara niður að þremur bæjum í Reykjarfirðinum. Aðalvegurinn liggur að kaupstaðnum Kúvíkum, eða Reykjarfirði, sem hann vanal. er kallaður, er hann lengstur. Styzt er að fara niður að Kjós, og er undarlegt, að sýsluvegurinn skuli ekki liggja þangað, því bæði er það styttra, og svo er vegur þar að mun ódýrari. Yfir heiðina er fremur góður vegur og allvel vandaður, en víða eru þó vörðurnar fallnar. Úr Reykjarfirðinum liggur sýsluvegur yfir Göngumannaskörð að Árnesi. Flesta er fara þá leið mun furða, að það er sýsluvegur, því ekki lítur út fyrir, að sú leið hafi verið rudd í lengri tíma. Að sunnanverðu eru allar götur fullar af grjóti, og á einni smábrú, sem þar er, eru göt. Að gera það góðan veg getur ekki verið mjög dýrt.
Félagsskapur er lítill í Víkursveit, lestrarfélag er ekkert til þar, og búnaðarfélagið, sem Guðjón ráðanautur Guðmundsson stofnaði þar, varð eg ekki var við, eða sá neitt, er það mundi hafa gert. Eg var þar eins og annarstaðar að reyna að koma á fót Good-templarastúku, og gekk fremur stirt. Einn Good-templar er í sveitinni, hr. Jón gullsmiður í Árnesi, sonur prestsins þar, séra Eyjólfs Jónssonar.
Séra Eyjólfur er bindindismaður, annars er fátt um þá. Þó mætti koma þar á fót stúku, en eg áleit að það væri ekki vert að hugsa um það, þar sem svo fáir búendur fengust. Vínnautn er nokkur þar, þótt enginn vínsölustaður sé þar í nánd, er það víst mestmegnis pantað frá útlöndum, enda er þeim yfirleitt sama hvort vínsölubannslög eru lögleidd eða núgildandi lög. En fyrir utan bindindismálið sjálft, væri mjög gott fyrir þá að fá upp stúku hjá sér, og það vegna þess, að reynsla er fyrir því, að af þeira félögum, sem eru hér á landi, er ekkert þeirra eins vel fallið til þess að gera menn félagslynda og góða félagsmenn og Good-templarafélagið. Og sundrungin hefur bakað oss nóg böl, þótt reynt væri að fara að brjóta hana á bak aptur. Og sérstaklega virðist mér það nauðsyn, að koma upp slíku — burtséð frá bindindismálinu — þar sem lítið er um félagsskap.
Víkverjar eru yfirleitt duglegir og góðir drengir. Ýmsir góðir bændur eru þar, Guðm. Pétursson í Ófeigsfirði, Guðmundur á Finnbogastöðum o.fl. Séra Eyjólfur hefur og mikið bú, og dvaldi eg mest hjá honum, meðan eg var í sveitinni. Þorsteinn gagnfræðingur Guðmundsson í Kjörvogi fylgdi mér innan um sveitina, og skildi ekki við mig fyr en eg lagði upp á Trékyllisheiði með fylgdarmanninum. Fræddi hann mig um margt viðvíkjandi sveitinni.
Víkverjar láta sig og miklu skipta almenn mál, og fylgjast vel með, enda eru blöð haldin á hverjum bæ, nema einum. Langmest er haldið þar af Þjóðólfi, meir en helmingi meira en af Ísafold. Næst eptir Þjóðólf mun Þjóðviljinn vera útbreiddur þar.
Síðasta kjörfund sóttu Víkverjar mæta vel; 17, eða meir en helmingur af þeim, er voru heima, eiga þó að sækja langa leið og erfiða. Verður ekki annað sagt um það, en það sýnir mikinn áhuga — að minnsta kosti hjá einstöku mönnum.
Af náttúrunnar hálfu er víða fallegt þar nyrðra, t.d. í Árnesi, bænum Reykjarfirði og víðar. Húsakynni eru þar víðast hvar góð, en ekki kann eg við portbyggðu baðstofurnar sem eru þar. Sumstaðar eru timburhús, t.d. í Árnesi.
II.
S t e i n g r í m s f j ö r ð u r
skerst inn í landið fyrir sunnan Víkursveitina. Að honum liggja 3 sveitir, og er hver sveit hreppur út af fyrir sig. Inn í nesið milli Steingrímsfjarðar og Reykjarfjarðar liggja nokkrir firðir og víkur. Eg ætlaði mér að fara þangað, og vera við messu hjá séra Hans, en það varð eigi, vegna þess að presturinn fór ekki út eptir að messa. Annars skal eg geta þess, að kirkjurækni virtist mér vera æði dauf. Þannig kom eg á einn stað í leiðinni og ætlaði að vera við messu, veður var hið bezta, glaða sólskin og blæjalogn, en enginn kom til kirkjunnar nema presturinn. Svo var optar, og aldrei var eg við messu á leiðinni, þótti mér það leitt.
Neðan til við Steingrímsfjörðinn er sveit sú, er Selströnd heitir; eg kom ekki þangað, en eptir útlitinu að sjá yfir fjörðinn, er það gott land, en fremur leiðinlegt, einsett bæjaröð, og fremur langt á milli bæja. Búskapur er þar víst góður, að minnsta kosti eru þar margir góðir bændur, t.d. Ingimundur Guðmundsson að Hellu, Eymundur Guðbrandsson í Bæ og Guðjón alþm. að Kleifum. Einn bóndi þar, Eymundur í Bæ, hefur tóurækt, svo hefur og Guðmundur bóndi í Ófeigsfirði, annars mun það fremur fátítt hér á landi. Í Ameríku er talsvert af slíkri rækt, og sumstaðar þar eru ræktaðir kettir. Slík rækt gæti auðvitað margborgað sig einnig hér á landi. Eymundur hagar því þannig, að hann kaupir yrðlingana á vorin, og setur þá síðan fram í stóra eyju — Grímsey — er liggur í kjaptinum á Steingrímsfirði, um veturinn drepur hann þá, og selur skinnin. Fyrir skinnið af vel mórauðri tóu mun hann fá 25-40 kr., eptir því verði sem þá er, svo og stærð og gæðum skinnsins. Fæðið handa tóunni er ódýrt, bæði drepur hún fugla handa sér, og svo etur hún allskonar afgang, t.d. selarusl, afgang af fiski o.fl. Það er náttúrlega talsverður skaði, að verða að drepa þær allar um veturinn, væri mikið betra, ef hægt væri að láta eitthvað af þeim lifa til undaneldis, en það er ekki hægt þar sökum íssins, er getur komið þá og þegar. En í eyjum, þar sem engin hafís- né lagíshætta er, ætti að vera mikill ágóði að tóurækt, eða þá einhverri annari dýrategund, þar sem hægt er að selja skinnin með góðu verði. Í sambandi við tóurækt ætti t.d. að mega hafa kattarækt; mætti selja skinnið af köttunum, en kjötið af þeim væri afbragðsfæði handa tóunum. Með tímanum spekjast tóurnar, og koma á móti þeim er færir þeim matinn.
Upp frá Steingrímsfjarðarbotninum liggja tveir dalir, Selárdalur og Staðardalur, liggja þeir báðir nær því allir undir Staðarprestakall. Dalir þessir, ásamt innri hluta suðurstrandarinnar við Steingrímsfjörð, mynda Staðarsveit eða Hrófbergshrepp.
Selárdalurinn er fremur þröngur dalur, og óálitlegur ásýndum. Í honum eru aðeins þrír bæir, og einn þeirra tilheyrir Selströndinni. Eptir dalnum rennur á, er Selá heitir, mun hún vera eitthvert stærsta vatnsfallið á Vestfjörðum. Úr þessum dal leggur maður upp á Trékyllisheiði, þegar farið er norður í Víkursveit. Skammt fyrir framan veginn — um klukkutíma reið — er mjög fagur gulvíðisskógur, ætti hver sá, er fer þar um, að ómaka sig og skoða skóginn. Skógurinn nær yfir allstórt svæði, og er mikill lífsþróttur í honum. Má alstaðar sjá nýjan og ungan víði, sem er að vaxa upp. Þar sem skógurinn er hæstur, er hann meir en hæð mín, þ.e.a.s. um 3 ál., og vex víðirinn þó ekki beint upp. Eins og allir aðrir skógar, þá er skógur þessi lægstur næst bæjunum. Fyr meir hafði verið bær þar fram í dalnum, en nú er hann lagður í eyði; einmitt á móti þar sem bærinn hefur staðið, er skógurinn lágur, en hærri bæði fyrir framan og utan, þegar lengra dregur frá. Skóg þennan virðist mér vera nauðsynlegt að friða. Eg hef séð birkiskógana hér, en miklum mun þykir mér gulvíðisskógurinn fallegri. Meðan séra Hans ræður yfir honum, mun honum vegna vel, því séra Hans er skógarvinur mikill, og mun gera sitt til að hann verði ekki eyðilagður.
Staðardalurinn er breiður og dalslegur. Þar skil eg ekki annað en að mætti bæta engjar talsvert, með því að taka upp Staðará og hleypa yfir eyrarnar. Séra Hans sagði mér að það mundi þó allerfitt. Í þessum hrepp, sunnan við fjörðinn og talsvert fyrir utan fjarðarbotninn er kaupstaðurinn Hólmavík, þar eru tvær verslanir, læknir og eitthvað einn þurrabúðarmaður. Kaupstaðurinn er því ekki ýkja stór ennþá. Eg kom opt að Hólmavík, og hafði þar hinar beztu viðtökur sem annars staðar á leið minni. Síðan verzlunin kom þangað, var mér sagt að sveitamönnum þar í kring hefði stórfarið fram, eigi veit eg um það, en víst er um það, að margir góðir bændur eru við Steingrímsfjörð, og víða vel hýst. Þannig skal eg geta Finns Jónssonar á Kálfanesi og Magnúsar Halldórssonar í Skeljavík, Magnúsar hreppstj. Magnússonar á Hrófbergi, Þórarins Hallvarðssonar á Ósi og Ingimundar á Hellu. Á öllum þessum bæjum eru timburhús. Á Hólmavík er, eins og lög gera ráð fyrir, póstafgreiðsla, en betri mætti hún vera. Fyrir framan búðarborðið liggja blöð í hrúgum, bæði að því eg held í pokum og kössum. Mest eru það Ameríkublöð, en þó sá eg þar ýmis önnur blöð, t.d. Gjallarhorn og Fjallkonu norður í Árneshrepp, Þjóðólf í Fellshr. og Ísafold í Bæjarhr. Slík afgreiðsla er lítt fyrirgefanleg. Eitt eintak af Ameríkublaði lá þar meðal annara, það átti að fara vestur í Ísafjarðarsýslu. Eg skoðaði þó minnst af því er var þar. Þetta er náttúrlega bæði að kenna afgreiðslunni, og svo bændum þar í kring að nokkru. Þó er ekki svo gaman fyrir þá að eiga við það. Séra Hans sagði mér, að hann hefði verið þar fyrir tveim dögum og spurt að blöðum. Þau voru engin. Þó sá eg þar blöð til hans. Má geta þess að engin blöð komu þessa daga. Afgreiðslan þarf nauðsynlega að batna. Þeir er senda blöðin, eiga heimting á því, að þeim sé komið í næstu bréfhirðing við þann, er þau eru send til, en ekki látin liggja einhversstaðar og einhversstaðar. Og þótt bændurnir þar í kring skipti sér ekkert af því, þá eru líka aðrir er vilja fá þau, og það sem fyrst. Einhver svarar því, að það geri ekkert til, þetta séu mest Lögberg og Heimskringla. En eg vil aðeins minna þá herra á það, að þau blöð eiga jafna heimting á því og önnur blöð, því það hefur verið greitt fullt burðargjald fyrir þau. Ef þeir, sem blöðin eru send til, eigi vilja hirða þau, þá er miklu réttara að endursenda þau, heldur en að láta þau liggja í óreiðu á póstafgreiðslu- eða bréfhirðingastaðnum.
Póstmeistarinn ætti að sjá um, að blöð og annað sé sent hvarvetna með reglu. Eg gat um þetta við þá, en mér var sagt að pósturinn vildi ekki taka þau(!!). Ef svo er, held eg að aumingja pósturinn misskilji stöðu sína.
Annað er það, sem einkennilegt er við póstinn í Strandasýslu, og það er það, að hvergi í sýslunni fæst keypt bréfspjald, hvað sem boðið væri. Það lítur út fyrir að póststjórninni sé eigi annt um að koma út vörum sínum.
Eins og eg tók fram áður býr héraðslæknirinn í Hólmavík, var hann að byggja sér þar hús, er eg fór þar um. Þó var hann fluttur í húsið, en eigi var það líkt því búið. Eins og kunnugt er máske, þá ríkir þar talsverð — jafnvel mikil — óánægja með hann. Eg ætla að leiða minn hest alveg frá því, en þó vil eg geta þess, að meðan slík óeining ríkir, má ekki búast við því að félagsskapur sé mikil þar. Þessi óeining þeirra, skipting með og móti lækninum hefur meðal annars orðið til þess, að þótt friður ríki í hreppnum, þá er félagsandinn þar eigi eins góður og ella væri og eg held hann verði það ekki nema þeir fái eitthvert mál, er þeir sameiginlega geta barizt fyrir, og getur þannig leitt þá saman aptur. Eitthvert bezta ráðið til þess mundi vera stúka, taka upp bardagann móti vínnautninni, því talsvert er drukkið i þessum tveim hreppum, en hún á þó líklega nokkuð langt í land. En góð stúka yrði þar, ef þeir Gunnlaugur sýslunefndarmaður á Hrófbergi og Jón verzlunarstjóri Finnsson vildu sameina krapta sína. Einn fund ætlaði eg að halda þarna, en hann fórst fyrir sökum óveðurs.
Fyrir utan Staðarsveitina tekur við Tungusveitin, er hún yzt og inn með firðinum að sunnnanverðu. Tungusveitin er yfirleitt mjög góð og falleg sveit. Landgæði eru þar, eins og annars staðar í sýslunni mjög mikil og féð vænt. Reki er þar víðast hvar mikill. Í Tungusveit eru margir góðir og myndarlegir bændur, og eptir því sem eg kemst næst mjög félagslyndir og samheldnir í öllum félagsmálum. En stúku vildu þeir eigi stofna, sögðu að lítið væri drukkið í sveitinni og er það satt, því þeir eru yfirleitt miklir reglumenn. Í Tröllatungu býr Jón bróðir Magnúsar sýslum. í Vestmannaeyjum, mesti myndar- og dugnaðarbóndi. Þótt jörðin sé kirkjueign, þá er hún betur setin og hirt en flestar bændaeignir. Jón hefur byggt mikið og vandað timburhús á jörðinni, og bætt túnið mjög mikið, bæði sléttað það, aukið og komið því í góða rækt, en áður var það í órækt og niðurníðslu. Væru aðrar jarðir jafn vel setnar væri landið blómlegra og frjósamara en nú er. Björn bóndi Halldórsson á Smáhömrum hefur og gert mjög mikið við jörð sína, byggt stórt timburhús, sléttað allt túnið og sett girðing í kringum það allt saman o.s.frv. Víðast hvar var vel hýst, og auðséð á bæjunum, að vel var búið t.d. á Heydalsá.
III.
K o l l a f j ö r ð u r
Fyrir sunnan Steingrímsfjörð skerst inn í landið lítill fjörður, sá er nefndur Kollafjörður, eptir þeim, er fyrstur byggði fjörðinn, sá hét Kolli, og bjó hann undir Felli. Þar býr nú presturinn, en landnám Kolla hefur skiptst, og myndar einn hrepp, er hann kenndur við Fellið og kallaður Fellshreppur.
Yzt við Kollafjörð að norðanverðu stendur bær sá er Kollafjarðarnes heitir. Þar hefur nú um fyrirfarandi ár búið Guðmundur bóndi Bárðarson, hinn mesti framkvæmdarmaður, enda ber jörðin þess ótvíræð merki. Allt túnið hefur verið sléttað og girt, byggt timburhús, og engið hefur verið stórbætt, og mikið af því gert að flæðiengi og girt. Guðmundur er nú fluttur frá jörðinni, að bæ í Hrútafirði, en Guðmundur sonur hans býr þar nú. Guðmundur hinn yngri er fræðimaður mikill, og að allra áliti mikill náttúrufræðingur. Náttúrufræði Íslands á honum talsvert að þakka, nægir þar að benda á það, að hann hefur safnað miklu af grösum, skófum og mosa á Vesturlandi, sérstaklega í Strandasýslu. Í »Flóru Íslands« eptir Stefán kennara, má sjá þess ljós merki, svo og í Lichens Islandiae eptir J. S. Deichmann Brandh (Kh. 1903). Nú er Guðm. aðallega farinn að hugsa um dýra- og jarðfræði; segir hann að margar jarðfræðileifar megi finna þar, sjór hafi fyr gengið mikið hærra, og verið mikið heitari en nú o.fl.
Presturinn, séra Arnór Árnason, býr undir Felli, hefur hann margt hjúa og bú stórt. Rétt þar hjá eru Ljúfustaðir, þar sem Guðjón alþm. bjó. Ljúfustaðir munu vera fremur lítil jörð, en vel setin, þar er timburhús og fjárhús mikil, mörg undir einu járnþaki. Þá fjárhúsabygging er nú, farið að tíðka allvíða, enda hlýtur hún að vera hentug. Fjármaðurinn þarf ekki að ganga milli margra húsa, og eigi að opna nema einar dyr. Honum verður því léttara að hirða féð. Auk þess verða húsin betri, þrifalegri og bjartari.
Mjög víða var rætt um Guðjón við mig, og er eg sannfærður um það, að enginn mun sækja gull í greipar Guðjóns við alþingiskosningar þar í sýslu, svo vel er hann kynntur þar, og svo vel líkar þeim Strandabúum yfirleitt stefna hans í stjórnmálum. Gaddavírinn góði hefur líka ekki spillt. Öllum búendum þar leizt mjög vel á frumvarpið, og glöddust yfir framgangi þess, en fáa heyrði eg hæla því meir og alþingi fyrir gerðir sínar í því máli, en séra Arnór undir Felli. Vænst þótti honum þó um frumvarpið vegna þess, að það sýndi svo mikinn og ótvíræðan framfarahug hjá þinginu, en yfirleitt voru þeir, er töluðu um frumvarpið, sammála um það, að mjög óheppilegt væri það, að eigi mætti girða meira en hið ræktaða tún. Það getur mjög víða staðið svo á, að móar eða grundir liggi að túninu, er bóndinn vill rækta og gera að túni, og liggur þá í augum uppi, að það er margfalt hægra fyrir hann að rækta það, ef hann girðir blettinn. Það ákvæði laganna, að búandi megi girða slíkt svæði á sinn kostnað, virðist harla einkennilegt.
Annað atriði, sem menn urðu ekki sem bezt ásáttir um, var það, hvort girðingin þyrfti að vera jafnhá og lögin gera ráð fyrir. Allir voru sammála um það, að betra hefði verið, að hafa lögin eins og flutningsm. þeirra upphaflega vildi, að vírstrengirnir væru einum færri, en aptur væri skylda að jafna jörðina undir neðsta strenginn. Ef slík jöfnun væri á jarðveginum, skil eg ekki annað en þrír strengir séu nógir, að minnsta kosti er það reynsla Jóns búfr. Jónatanssonar. Þetta atriði álit eg nauðsyn að búfræðingar og bændur upplýsi, því óþarft virðist að gera girðingu hærri, og þar af leiðandi dýrari en þörf er, til þess að skepnur fari ekki í túnið.
Fáir, er eg hitti í för minni, hafa meir hugsað ýmis búnaðarmál, og fylgzt yfirleitt jafnvel með gerðum þingsins í þeim, og séra Arnór, enda hugsar hann mikið um bú sitt og býr mikinn. Engjar hans liggja á eyrum niður við Kollafjörðinn; eru engjarnar fallegar og sléttar, en mættu þó vera ennþá fallegri og betri, því þær liggja ákaflega vel við vatnsveitingu úr ánni. Séra Arnór fékk mann til þess að gera þar vatnsveitingarskurði, sá var búfræðingur; maðurinn gróf skurði, og kastaði hnausum og möl upp á eyrarnar. En árangurinn varð sá, að eyrarnar eru enn þýfðari en áður, en ekkert vatn rann þar er búfræðingurinn ætlaðist til þess. Aptur gerði þessi »jarðabót« það gagn, að áin fór annarstaðar upp á engjarnar, svo að nokkur hluti þeirra er nú flæðiengi.
Eitt af þeim málum, sem nú eru mjög á dagskrá í Tungusveit og Kollafirði, er það að sameina þar kirkjurnar. Á síðasta héraðsfundi átti að ræða mál það, en það varð eigi hægt, því enginn héraðsfundur var haldinn. Vantaði einn fulltrúa til þess að hann yrði löglegur. Tröllatungukirkja, sem er kirkja þeirra Tungusveitunga, er á sveitar- og kirkjusóknarenda, og því auðsjáanlega illa sett; Fellskirkja er aptur í miðri sókninni, en sú sókn er lítil. Þeir er fylgja sameiningunni, vilja fá kirkjuna að Hvalsá, og verður ekki annað sagt, en það virðist vera í alla staði æskilegt. Eg held það væri mun betra, að hafa kirkjurnar færri heldur en nú er, en að hafa þær aptur betri og sómasamlegri. Það, að kirkjurnar, guðshúsið, sé ljótasta húsið, sem til er á bænum, ljótara, óálitlegra og opt verra en fjárhúsin, virðist ekki vera sérstaklega vel til fundið. Sumar — og það jafnvel flestar — kirkjur hér á landi eru svo kaldar að vetrinum, að frágangssök finnst mér vera að bjóða ferðheitum og göngumóðum mönnum að sitja þar hreyfingarlausum í hér um bil 2-3 klukkutíma. Skil eg ekki annað, en það geti haft fremur slæm áhrif á heilsu manna. En það lítur út fyrir, að prestastéttin yfirleitt finni nauðalítið til þess. Ef þeir ætluðust til þess, að kirkjan væri sótt að vetri til, finnst mér nauðsyn, að það sé að minnsta kosti í henni ofn, og að hver smávindur næði ekki í gegnum hana, eins og nú mun eiga sér allvíða stað. Og eptir því sem kirkjurnar verða færri, eptir því fá þær meiri tekjur, og þá verður hægar að gera þær svo, að þær séu viðunanlegar.
Eitt af þeim málum, er við séra Arnór töluðum um, var hvort hestarnir eyðilegðu hagana, og skoðanir Guðjóns búfr. um það efni. Séra Arnór var ekki mjög hrifinn af skoðunum Guðjóns, að hestarnir eyðilegðu hagana, sagðist hann vart þekkja meiri villu. Hestarnir ræktuðu fremur landið, þeir bæði önduðu frá sér næringarefni handa jurtunum, og svo gæfu þeir þeim áburð; það væri því síður en svo að þeir eyðilegðu það. Eg skal nú ekki segja um það, hvort skoðun séra Arnórs er rétt, eg er ekki búfræðingur, en hitt finnst mér hljóta að vera vitleysa, að hagaganga hesta eyðileggi landið. Það er ekki nema eðlilegt, að hestarnir eyðileggi landið, ef það er offyllt af hestum. Það er alveg eins hægt að eyðileggja það, með því að offylla landið af fé eða nautpeningi, en annars held eg að hestarnir geri því fremur gagn. Sinuflóarnir virðast og bera vott um það. Eða hvernig haldið þið t.d. að Blönduhlíðin í Skagafirði og Skarðsströndin í Dalasýslu liti út, ef það væri rétt, að hestarnir eyðilegðu landið? Í þessum sveitum hefur hestum verið beitt líklega frá því að landið byggðist, og veit eg þó ekki annað en sveitirnar séu blómlegar; það virðist þó benda á það, að hagaganga eyðileggi ekki landið. Og svo er annað; þessir herrar, er prédika mest á móti hagagöngum, geta ekki hugsað sér öðruvísi útigangshesta, en grindhoraða og þróttlausa. Þeir mála hagagönguna með þeim dráttum, sem verstir eru. En þessir drættir eru heldur ekki réttir; vanalegast mun það, að vanir útigangshestar ganga aldrei úr spiki, eru alveg jafnfeitir vetur, sumar, vor og haust. Mér er kunnugt um áburðarhesta, sem eru útigangshestar, og aðra, sem er gefið, og ætti eg að dæma eptir því, vildi eg útigangshestana fremur; þeir eru feitari, (hinir eru aldrei eins feitir); þeir eru alveg eins þolnir og hraustir. Sú þyngsta byrði, er eg veit til að áburðarhestur hafi borið, bar gamall (um 16 vetra) útigangshestur norður í Skagafirði, sem aldrei hefur í hús komið, og aldrei hefur verið hafður til reiðar. Verst fyrir hestakyn vort mun það vera, að margir, bæði af neyð og þarfleysu, nota sama hestinn sem áburðarhest og til reiðar. Eg held að fátt fari ver með áburðarhestana en þetta reiðjask. Auðvitað er það, að til þess að útigangshestar séu feitir, má ekki offylla landið, og jörð verður að vera nóg. Í flestum sveitum mun svo vera t.d. í Skagafirði, að jörð þrýtur aldrei, og hreinn óþarfi er að gefa hestum, nema kannske 1-2 vikur á mörgum árum. Í þeim sveitum virðist því nóg aðeins að eiga til nokkurt hey handa þeim, ef illa vetrar, þegar nýir straumar berast til vor, finnst mér vér verðum að gæta þess, að þeir eigi við, en eigi gleypa allar bókstafskenningar eins og einhvern »lífsins elixír« er bæti öll vor mein.
Þá er og önnur kenningin sú, að hesturinn sé þeim mun betri, sem hann er stærri. Þetta er náttúrlega rétt, að því leyti sem hestar eru seldir til útlanda, en í öllum tilfellum er það ekki. Þannig sá Guðjón búfr. t.d. undir Felli stóra og stæðilega hryssu, er séra Arnór á, og leizt G. hún vel til kynbóta fallin, og ágirntist því hryssuna. Séra Arnór vildi eigi láta Guðjón fá hana til þeirra þarfa, því hann vill ekkert eiga undan hryssu þessari. Þótt hún sé stór og fönguleg, þá er hún löt, treg og silaleg, og af slíkum hestum höfum við nóg. Það er hægt að gefa hestum krapta og jafnvel stærð, en vilja held eg að sé alveg ómögulegt að gefa þeim, en vilji er mjög mikils virði, og það þótt hesturinn sé áburðarhestur; hann gengur betur fyrir plógnum, er röskari o.fl. Eg held menn ættu, jafnframt því sem þeir hugsa um stærðina á kynbótahestum sínum, að hugsa um kyn þeirra og vilja.
Sunnan við Kollafjörð skerst fjörður sá, er Bitra heitir, inn í landið. Þegar farið er þangað, liggur leiðin nú orðið framarlega yfir hálsinn, sem er á milli sveitanna; áður lá hann með sjó fram, fyrir framan hálsinn leið þá, sem kölluð er fyrir Stiga. Eg fór þá leið, og kom því að Broddanesi, sem nú um mörg ár hefur verið mjög vel setin jörð. Jörðin sjálf er stór, og mikil hlunnindajörð. Þar bjó um langan aldur Jón heit. faðir Björns prests í Miklabæ. Mér var sagt frá því þar, að Jón hefði sagt það, að þegar hann hefði verið ungur, hefði það þótt ósvinna að koma svo frá kirkju, að eigi fyndist vínlykt af manni. Jóni þótti brennivín slæmt, og var alla æfi sína mikill reglumaður, en til þess að geta þó fylgst með, þá hafði hann blátt pelaglas og dreypti á því rétt áður en hann kom á bæina, til þess að brennivínslyktin fyndist þó af honum. Nú er þessi hugsunarháttur fyrir löngu horfinn bæði þar — og víst annarsstaðar. — Menn eru orðnir svo fróðir, að þeir vita að áfengið er eitur, sem aldrei gerir gagn, en einungis skaða, og það er almennt álitin skömm að því að láta sjá vín á sér. Bráðum komumst vér svo langt, að fólk álítur yfirleitt skömm fyrir hvern mann að neyta áfengra drykkja í hversu smáum mæli sem það er.
Á Broddanesi er nú Sigurður hreppstj. Magnússon, hinn gestrisnasti og höfðinglegasti maður, og búhöldur góður. Á Broddanesi er timburhús, svo er og víðar, t.d. á Stóra-Fjarðarhorni. Bóndinn sem þar var, Jón Þórðarson, hefur bætt jörðina mjög mikið, enda fékk hann í ár verðlaun úr ræktunarsjóðnum. Jón flutti í vor þaðan að Hvítadal í Saurbæ. Eins og eg gat um áður, tekur
B i t r a
við fyrir sunnan Kollafjörð, hún myndar, eins og Kollafjörður, einn hrepp og eina sókn. Höfuðbólið þar af jörðum mun vera Óspakseyri. Þar býr nú sýslum. Marinó Hafstein stóru búi; hann er maður hinn gestrisnasti og skemmtilegasti heim að sækja. Annarsstaðar kom eg ekki í Bitru, svo eg hef litla ástæðu til að segja meira um Bitruna. Þegar farið er þaðan til Hrútafjarðar, er riðið yfir Stikuháls; við veginn norðan á hálsinum þyrfti nauðsynlega að gera, hann er mjög grýttur og því ógreiður yfirferðar. Sá vegur er landsjóðsvegur.
Þegar eg gat um Steingrímsfjörðinn, gleymdi eg einu, sem er alleinkennilegt þar. Þegar tveir menn mætast þar, annar norðan úr Víkursveit, en hinn úr mótsettri átt t.d. Húnavatnssýslu, spyrja hvorn annan: Hvaðan kemur þú? Sá fyrri svarar: »Að norðan«, og sá síðari: »Að norðan«. Báðir koma að norðan, og koma þeir þó eigi úr sömu áttinni, heldur hér um bil úr tveimur mótsettum áttum.
IV.
B æ j a r h r e p p u r
nefnist sá hreppur, sem er syðstur í sýslunni. Hann er inn með Hrútafirði að vestanverðu, allt utan frá fjarðarmynninu og inn í dalsbotn. Hreppurinn er yfirleitt mjög vel setinn, og fáir hreppar eiga tiltölulega jafngóða bændur og þar eru. Það sem einkennilegast er, er að góðu bændurnir eru þar svo margir, því optast mun svo haga til, að þá þykir vel, þegar 2-3 mjög góðir bændur eru í sveitinni.
Þeir bæir, er maður kemur fyrst að, þegar maður kemur að norðan, eru Víkurnar — Skálholtsvík og Guðlaugsvík. Báðar þær jarðir eru mjög vel setnar, enda hefur annar bóndinn, Ragúel Ólafsson í Guðlaugsvík, fengið verðlaun úr Ræktunarsjóðnum, (svo hafa einnig fleiri bændur fengið þar), og er þó ekki þar tekið tillit til þess, að hann hefur byggt timburhús á jörðinni. En þetta eru ekki einu jarðirnar sem eru vel setnar, það má nefna t.d. Grænumýrartungu, Mela, Borðeyri, Kjörseyri, og síðast en ekki sízt Bæ. Sigurður heit. sýslumaður hefur gert þar stórar og miklar jarðar- og húsabætur, byggt timburhús, mikil búpeningshús, sléttað og girt túnið o.s.frv. En Guðm. Bárðarson mun ekki láta sér nægja það; hann getur víst varla setið jörð svo, að hann ekki geri á henni stórar bætur árlega. Í haust, er eg fór þar um, var hann farinn að róta um mónum fyrir sunnan túnið. Á fáum bæjum, að undanteknum sjálfum »amtmanninum!« — Ólafsdal — er jafn snyrtilega gengið frá öllu utan og innan bæjar og á Borðeyri, hjá Kristjáni bónda Gíslasyni. Sem dæmi þess skal eg geta þess, að þegar riðið er heim að bænum, liggur tröðin inn í hestarétt. Slá er til þess að setja fyrir innganginn, svo hesturinn komist ekki aptur út úr réttinni, en á hinni hlið réttarinnar er hlið, og liggur úr því gangstígur heim að bænum. En vegna þess að hann er upp brekku, hafa verið gerðar þar tröppur. Slík rétt sem þessi, er réttnefnd metfé. Hlaðið smáhverfur, varpinn verður gott tún, og hestarnir gera túninu engan skaða. Þannig lagað fyrirkomulag sá eg hvergi annarsstaðar, nema í Ólafsdal, en þar er tröðin sjálf rétt. En óskandi væri að fleiri tækju það upp. Ólafsdalur gengur þar sem annarsstaðar á undan með góðu eptirdæmi.
Í Bæjarhreppnum er fé ákaflega vænt. Ragúel í Guðlaugsvík gaf mér ýmsar upplýsingar um það. Hann á vikt á fé sínu og afurðum þess. Honum er kunnugt um allt búfjárlegt, hve mikið af sméri fáist úr svo og svo miklu af mjólk o.s.frv. Annars hafa fáir bændur slíkar skýrslur, þótt þær séu nauðsynlegar fyrir búskapinn. Sem dæmi upp á vænleik fjárins þar, skal eg geta þessa. Í haust lét Ragúel margar kvíær í kaupstað, þær vógu 105-134 pd., nema ein, og hún var 95 pd.; hún þótti R. svo ritjuleg, að hann vildi ekki eiga hana! Fyrir nokkru vóg tvílembd dilkær hjá honum 155 pd., en dilkarnir voru 70 pd. og 65 pd. Í Laxárdal var fyrir nokkru kvíær, er vóg 144 pd. Gagnið af fénu er ekki lítið. Að minnka þar sauðfjárræktina, en fara að hafa þar kúabú, held eg að væri til skaða fyrir sveitina. Þar sem sveitirnar eru fjalllendar, verður aldrei hægt að hagnýta sér jafnvel landið með kúabúum sem sauðfjárbúum.
Í Víkunum er ágæt þangbeit, en sá galli fylgir henni, að ef ær ganga þar eftir hrýtingu, kemur það opt fyrir, að lömbin eru máttlaus, þegar þau fæðast. Beinin eru sem brjósk, svo það verður að drepa þau. Ragúel hefur opt reynt að lækna lömbin, en aldrei tekizt það. Það má auðvitað láta þau lifa, en máttlaus verða þau. Ráð við þessu mun vera það, að gefa ánum barin bein og roð, ef hægt er, eða þá hvalbeinamjöl. Torfi skólastj. Bjarnason sagði mér, að nóg væri að gefa þeim hey meðfram beitinni, og má vel vera að svo sé.
Eptir endilöngum Bæjarhrepp liggur landsjóðsvegur; menn skyldu því ætla að vegurinn sé góður. Svo er og; en eigi mun það vera landsjóð að þakka, heldur miklu fremur sveitinni, og því, að vegurinn er orðinn fyrir skömmu landsjóðsvegur! Að minnsta kosti freistast menn til þess að líta svo á málið, þegar þeir fara yfir Kolbeinsstaðaháls og hitta upphleypta brú, sem er ófær nema fyrir fuglinn fljúgandi, en var ágætur vegur, er landsjóður tók við henni. Svo mikið er víst, að brýn nauðsyn er að gera við brúna, og stórfé kostar það ekki, því hún er stutt; en auðvitað er gamla brúin orðin gerónýt, vegna þess hve hún hefur verið trössuð.
Áður en vegurinn varð landsjóðsvegur, byggði sveitin brú yfir á, er Laxá heitir. Sú brú fauk. Þá byggði hún aðra brú, og tók lán til brúargerðarinnar. Hvílir enn nokkuð af láninu á sveitinni. Í sumar var fyrir þinginu uppgjöf á láninu, og finnst mér öll sanngirni mæli með uppgjöfinni. Vegurinn er nú orðinn landsjóðsvegur, og því rétt að landsjóður taki við honum eins og hann er, og skuldinni líka, og svo er það ekki nema sanngjarnt, að veita uppgjöfina sem heiðurslaun til sveitarinnar fyrir dugnað hennar í brúarmálinu. Auk þess má og gæta að því, að Strandasýsla fær ekki mikið fé til vegabóta. Þessi leið út Bæjarhrepp og inn Bitru, er eini landsjóðsvegurinn, sem er til í sýslunni, og að honum hefur víst lítið verið gert, síðan landsjóður tók við honum.
Fyrir nokkrum árum var bindindisfélag í sveitinni, en nú er það dáið, en það hefur haft mikil og góð áhrif á sveitina. Á sum heimili þar er eigi fluttur einn dropi af áfengi. Þetta hefur stutt mjög að því, að bændur þar eru yfirleitt meðmæltir bindindi, enda hafa prestarnir, séra Páll próf. Ólafsson og séra Eiríkur próf. Gíslason líka stutt þar bindindi og reglusemi. Áhrifin eru augljós. Í vor vona eg að verði stofnuð þar stúka. Séra Eiríkur er því mjög meðmæltur, sömuleiðis Benóní Jónasson oddviti í Laxárdal, Kristján Gíslason á Borðeyri, Jósef Jónsson á Melum, Finnur Jónsson á Kjörseyri og Guðmundur Bárðarson í Bæ. Allir þessir menn ætla að ganga í hana, og fjórir hinir fyrsttöldu vinna að því að undirbúa málið í vetur. Og stúka mundi hafa góð áhrif þar, bæði auka félagslífið og hvetja menn til framkvæmda; en sérstaklega vona eg þó, að hún yrði til þess, að Riis kaupmaður á Borðeyri hætti að selja áfengi. Og eitt gerði hún, hún tryggði það, að sveitin yrði áfram bindindissöm — og það er ekki svo lítið.
Um skemmtanir er víðast hvar lítið í Strandasýslu; helztu skemmtanir þar eru spilin. Skáktafl var á nokkrum stöðum, er eg kom. Langbeztur taflmaður þar er Finnur Jónsson að Kjörseyri. Þyrði eg óhræddur að setja hann móti beztu taflmönnunum hér í Rvík. Finnur er gamall valdskákarmaður, og vill helzt tefla valdskák; fórum við í 6 valdskákir, og skildum jafnir. Þótti mér það heiður mikill, því eigi hef eg teflt hana áður. Í drepskák hafði eg lítið eitt betur. Næstur Finni mun Jósef Jónsson á Melum vera, en því miður hafði eg ekki tíma né tækifæri til þess að tefla við hann. Skákdálka Þjóðólfs höfðu þeir lesið, og ráðið allar taflþrautirnar, og eina prentvillu sýndi Finnur mér í taflþrautunum. Þótti mér það vel gert, að sjá hana, lagfæra og ráða taflþrautina svo rétt væri.
Í sumar voru miklir óþurkar við Hrútafjörð. Sagði séra Eiríkur mér, að það mundi vera eins og meðalþurkasumar í Staðarsveit. Sunnlenzku stórrigningarnar eru alkunnar, og sérstaklega má séra Eiríkur vel þekkja rigningarnar í Staðarsveit, þar sem hann var svo lengi. En Hrútfirðingum þótti óþurkasamt, en þó náðust þar inn öll hey með þolanlegri verkun. Aptur voru miklir þurkar við Bitru, en afleitt við Kollafjörð, í meðallagi við Steingrímsfjörð, og svo fram úr hófi slæmt víðast þar fyrir norðan. Þeir þurftu ekki að segja eins og karl nokkur, er eg hitti í Borgarfirði: »Það var ómögulegt að heyja fyrir þurkum!«