Þrettándu tónleikarnir á Mölinni eru jólatónleikar Malarinnar sem verða haldnir í þriðja sinn þriðjudagskvöldið 16. desember á Malarkaffi. Að þessu sinni mun söngvaskáldið geðþekka Svavar Knútur heiðra Strandamenn og -konur með nærveru sinni og flytja jólalög, eigin og annarra í bland við annað efni. Flateyringinn Svavar Knút Kristinsson þarf varla að kynna fyrir fólki. Hann hefur á undanförnum árum unnið sér fastan sess í hjörtum landsmanna með einlægri og glaðhlakkalegri framkomu, einstakri söngrödd og vel smíðaðri tónlist. Á síðustu árum hefur hann sent frá sér þrjár sólóplötur auk jólaplötunnar „Eitthvað fallegt“ sem hann gerði í félagið við Kristjönu Stefánsdóttur og Ragnheiði Gröndal. Svavar Knútur hefur vanið komur sínar á Strandir um nokkurt skeið og m.a. haldið tónleika á Hólmavík og í Djúpuvík.
Á undan Svavari mun Borko bregða sér í jólagírinn og flytja nokkur lög venju samkvæmt. Tónleikarnir hefjast kl.21:30 en húsið opnar hálftíma fyrr. Miðaverð er 2000 kr. Meðfylgjandi er mynd af Svavar Knúti tekin í Djúpuvík á Ströndum. Mölin er styrkt af Menningarráði Vestfjarða
Tónleikaröðin Mölin hóf göngu sína haustið 2012. Tónleikar Svavars Knúts eru 13. tónleikarnir í röðinni en aðrir tónleikar hafa verið sem hér segir:
Mölin #1 – Prins Póló
Mölin #2 – Jónas Sigurðsson og Ómar Guðjónsson
Mölin #3 – Sigurður Guðmundsson
Mölin #4 – Ylja
Mölin #5 – Snorri Helgason
Mölin #6 – Benni Hemm Hemm
Mölin #7 – Lay Low
Mölin #8 – Sigríður Thorlacius
Mölin #9 – Skúli mennski
Mölin #10 – Hljómsveitin Eva
Mölin #11 – Adhd
Mölin #12 – Pétur Ben