22/12/2024

104 umsóknir um styrki frá Menningarráði

Alls bárust 104 umsóknir um styrk frá Menningarráði Vestfjarða, en umsóknarfrestur rann út snemma í nóvembermánuði. Umsóknir voru mjög fjölbreyttar og gaman að sjá hversu mikil gróska er í vestfirsku menningarlífi, uppbyggingu þess og þróun. Þessi mikli fjöldi umsókna gefur líka glögga mynd af þeirri miklu og blómlegu menningarstarfsemi sem er í gangi á Vestfjörðum og sýnir hversu mikil þörf er fyrir sjóð sem þennan.

Menningarráð hefur þegar hafist handa við að grandskoða umsóknir og fjalla um þær og mun endanlegrar niðurstöðu vera að vænta nálægt mánaðarmótum nóvember og desember. Þær upphæðir sem sótt er um eru umtalsvert hærri en það fjármagn sem sjóðurinn hefur úr að spila, en samtals var sótt um styrki að upphæð 72,5 milljónir. Sjóðurinn er samkeppnissjóður, þannig að þeir sem gert hafa vandaðar umsóknir fyrir góð verkefni sem falla að úthlutunarreglum og markmiðum sjóðsins eiga góða von um stuðning.

Vefsíða Menningarráðsins er á vefslóðinni www.vestfirskmenning.is.