22/12/2024

10. umferð tippleiksins

Á laugardaginn fer fram 10. umferð tippleiks strandir.saudfjarsetur.is sem hefur fengið afar góðar viðtökur og verið mikið skoðaður af gestum vefjarins. Þá eigast við Jón Jónsson sem hefur verið með í leiknum frá upphafi og Höskuldur Birkir Erlingsson Drangsnesingur og lögregluvarðstjóri á Blönduósi sem keppir í fyrsta sinn. Það kemur í ljós hvort Höska tekst að velta Jóni úr sessi, en hann heldur því fram að ein af ástæðum velgengni Jóns sé að hann hingað til verið að keppa við eintóma Liverpool-aðdáendur. Jón segir hins vegar að það sé skemmtileg tilbreyting að vinna Man. United aðdáanda. Það er því nóg af sjálfstrausti í spekingum helgarinnar og spárnar virkilega ólíkar, kapparnir eru ósammála um átta leiki af þrettán. Hér neðar má lesa skemmtilega rembingslegar spár þeirra:

1. Liverpool – West Ham
 
Jón: Fyrst Höskuldur heldur ekki með Liverpool get ég með góðri samvisku spáð þeim sigri núna um helgina. Að vísu hafa þeir verið að standa sig afar hörmulega upp á síðkastið, sem náðu hámarki í deildarbikarnum í vikunni þar sem þeir töpuðu fyrir lélegu 2. deildar liði. Það verður kombakk á laugardag. Tákn: 1.
 
Höski: Það er erfitt að spá Liverpool sigri í nokkrum leik, en þeir greyin eru búnir að fara frekar illa með ráð sitt í haust. Jafnframt berast þær fréttir að Steven Gerard verði með og hlýtur það að veita þeim þann kraft sem upp á vantar. En úpps – West Ham er fyrir ofan þá í deildinni.  Humm… ég held að ég verði samt að veðja á heimasigur hjá Liverpool. Tákn: 1.
 
+++
 
2. Chelsea – Blackburn
 
Jón: Chelsea ætti varla að tapa stigum tvær helgar í röð, þó þeir hafi hikstað um síðustu helgi og aftur í vikunni. Tákn: 1.
 
Höski: Ef að hægt sé að segja að einhver leikur á seðlinum sé öruggur, þá verður það að teljast þessi. Frank Lampard er í banastuði þessa dagana, betri miðjumaður er vandfundinn. Enginn vafi í mínum huga. Tákn: 1.
 
+++
3. Charlton – Bolton
 
Jón: Charlton hefur verið að standa sig vel í vetur og náðu að leggja Chelsea í vikunni. Að vísu er ákveðin hætta á að þeir séu þreyttir og búnir að vera, en samt hef ég ákveðið að veðja á Rúrik Gísla og félaga um helgina. Tákn: 1.
 
Höski: Já…… þetta finnst mér vera stór spurning. Charlton, er búið að koma ótrúlega mikið á óvart í haust, með fínni frammistöðu. Enda vörnin með Heimaeyjarklettinn Hermann Hreiðarsson í miðjunni. Hins vegar hef ég alltaf haft þó nokkrar taugar til Bolton síðan að Eiður Smári var þar um árið. Ég held að Bolton eigi eftir að hrekkja þá í Charlton eitthvað. Tákn: X.
 
+++
4. Birmingham – Everton
 
Jón: Ég hef nú tröllatrú á liði Everton, en þeir hafa svo sannarlega ekki staðið undir væntingum þetta árið. Þetta hlýtur samt að koma hjá þeim fljótlega. Þeir verða að sækja eitthvað af stigum á móti fallkandídötum eins og Birmingham. Tákn: X.
 
Höski: Því hefur verið fleygt að Steve Bruce stjóri Birmingham sé á síðasta sjens, og hann sé að verða uppiskroppa með gúdvill. Því verður hann að girða sig í brók og taka á málunum. Hins vegar má segja það sama um kollega hans David Moyes að hann gengur á heitum kolum þessa dagana. Hætt við því að annar hvor fjúki fljótlega. Týpískur botnslagur. Ég veðja á útisigur. Tákn: 2.
 
+++
5. Sunderland – Portsmouth
 
Jón: Erfiður leikur að spá um, held samt að Sunderland eigi að taka þetta um helgina, þó liðið eigi svo eftir að enda á botni deildarinnar. Tákn: 1.
 
Höski: Jæja, en einn botnslagurinn. Sunderland stóðu sig ágætlega á móti Newcastle, og áttu heiður skilið fyrir góða baráttu. Portsmouth hins vegar finnst mér vera frekar slakir þessa dagana og þar er enn einn stjórinn sem á það að hættu að lenda undir fallöxinni. Ég held að Portsmouth berjist til síðasta manns til að halda framkvæmdastjóranum. Ég ætla að skjóta á að þarna verði um týpískt botnjafntefli að ræða. Tákn: X.
 
+++
6. Middlesbrough – Man.Utd.
 
Jón: Man. Utd. hefur verið mjög óstöðugt í vetur og það er líka alltaf erfitt að spá í leiki með Boro. Ég verð þó að segja eins og er að Ferguson og félagar virka þreyttir og hef enga trú á að þeir nái að landa sigri um helgina. Það er annað hvort heimasigur eða að United nær að lafa á jafnteflinu. Höskuldur hlýtur að klúðra þessum. Tákn: X.
 
Höski: Það er nú það. Middlesboro hefur oft náð góðum úrslitum á móti Manu. Og þarna er um að ræða heimaleik hjá þeim. Hins vegar held ég að mínir menn láti ekki jafnteflið á móti Tottenham slá sig út af laginu. Ég get ekki verið þekktur fyrir annað en að veðja á þá. Tákn: 2.
 
+++
7. Reading – Leeds
 
Jón: Mínir menn í Reading hafa verið að gera góða hluti og Íslendingarnir hafa verið þar fremstir í flokki. Oft hafa þeir unnið með einu marki, en nú verður breyting á. Þetta verður öruggur heimasigur. Tákn: 1.
 
Höski: Heimaleikur hjá Reading. Víkingarnir okkar þeir Brynjar og Ívar, klikka ekki á þessu enda búnir að slá í gegn. Í vikunni var birt viðtal við sparksérfræðing sem sagði þá félaga vera bestu kaup félagsins, fyrr og síðar.  Leeds hins vegar er búið að standa sig ágætlega og er í fjórða sæti deildarinnar, þrátt fyrir jafntefli í síðasta leik.  Ég tippa hins vegar á enn einn heimasigurinn. Tákn: 1.
 
+++
 
8. Crewe – Crystal Palace
 
Jón: C. Palace menn hljóta að vera í skýjunum eftir að hafa unnið Liverpool í bikarnum í vikunni. Held að þeir verði fullir sjálfstrausts næstu 2-3 leiki og bókstaflega valtri yfir Crewe. Tákn: 2.
 
Höski: Crewe er í næst neðsta sæti deildarinnar með Crystal Palace í því fimmta. Ég held að Crystal Palace ætli sér aftur upp í úrvalsdeild. Tákn: 2.
 
+++
 
9. Watford – Wolves
 
Jón: Elton John og Úlfarnir, það verður slagur í lagi. Watford verður að fara að rífa sig upp úr öldudalnum sem liðið hefur sigið í undanfarið. Ætli Höskuldur flaski ekki á þessum. Tákn: 1.
 
Höski : Watford vann síðasta leik og ég held að þeir séu á hraðri uppleið aftur. Wolves eru aðeins 2 sætum neðar í áttunda sæti. Þetta verður baráttuleikur. Ég tippa á jafntefli í þessum leik. Tákn: X.
 
+++
 
10. Southampton – Stoke
 
Jón: Þetta held ég að hljóti að fara illa hjá Stoke. 3-0 er lágmarkið. Tákn: 1.
 
Höski: Southampton vann fínan sigur í síðasta leik á meðan að Stoke tapaði. Ég er pottþéttur á því að sigurvíman er ekki farin af Southampton og þeir vinni Stoke í þessum leik. Tákn: 1.
 
 +++
 
11. Derby – QPR
 
Jón: Gæti trúað að Derby menn bíti frá sér um helgina og taki QPR í bakaríið. Tákn: 1.
 
Höski : Einu sinni þegar ég var yngri, (ég var næstum búinn að segja ungur), þá fannst mér flott að halda með QPR.  Safnaði svona fótboltamyndum og einhverra hluta vegna hafði ég fengið margar myndir með leikmönnum þaðan. Þetta verður tilfinningaþrungnasti leikur dagsins í mínum huga þar sem að ég læt gömul bernskubrek ráða ferðinni. QPR vinnur í dag fyrir mig og mínar gömlu myndir. Tákn: 2.
 
+++
 
12. Preston – Leicester
 
Jón: Leicester hefur bara verið að ná stigum á móti allra lélegustu og óstabílustu liðunum í deildinni á meðan Preston hefur sýnt meira öryggi og átt séns í miklu fleiri leikjum, nema ég sé að ruglast á þeim og einhverjum öðrum. Held að Leicester hafi ekki roð við þeim. Tákn: 1.
 
Höski: Leicester vann síðasta leik með mikilli baráttu þar sem að Mark de Vries skoraði 2 mörk á sömu mínútunni. Sjóðheitur framherji þar á ferð og hann er ekki hættur. Leicester er lið sem mér finnst eiga mikið inni. Ég skýt á að þeir vinni útisigur. Tákn: 2.
 
+++
 
13. Coventry – Luton
 
Jón: Það hefur gengið hörmulega hjá mér að spá í leiki með Coventry. Þeir vinna aldrei þegar maður býst við því. Ég býst einmitt við að þeir vinni um helgina þannig að ekki þýðir að spá því. Jafntefli er því niðurstaðan. Tákn: X.
 
Höski: Mér hefur fundist Coventry vera alveg einstaklega óstöðugt lið. Ekki bætir úr skák að þeir eiga að leika við lið sem er í þriðja sæti deildarinnar, þ.e.a.s. Luton. Luton hinsvegar gerði jafntefli í síðasta leik á móti Plymouth sem er ansi mikið neðar á töflunni og þá var Luton á heimavelli en er á útivelli á móti Coventry.  Ég veðja samt sem áður á sigur Luton. Tákn: 2.
 
+++
Jón: Það verður gaman að vinna einn United mann í þessum skemmtilega leik, svona til tilbreytingar frá þessum Liverpool aðdáendum sem ég hef verið að keppa við. United menn hafa svo óttalegar öfga- og ranghugmyndir um enska boltann að það er engu líkt bara. Ég hef enga trú á að við Höskuldur spáum mörgum leikjum eins.
 
Höski: Það er mér sérstakt gleðiefni að fá tækifæri til að etja kappi við Jón ferðamálafrömuð Jónsson. Eins og ein góð kona sagði þá er ég búinn að bíða lengi í “ofnæmi” eftir því. Hingað til hefur Jón nefnilega ekki att kappi við harða Manchester United menn, heldur eintóma “púlara”, og það hefur haft sitt að segja í þeim efnum. Því verður Arsenalmaðurinn Jón Jónsson að bíta í það súra vínber að lúta í grænt gras fyrir Drangsnesingi að handan (flóans).  Ég hélt að ég yrði með spá upp á marga heimasigra en svo var það ekki þegar á reyndi.  Mér fannst auðveldara að fylla út seðilinn heldur en ég átti von á. Því skal ekki beðið lengur með vinningsspána !