Categories
Frétt

Viltu finna milljón? í Keflavík og Lundarreykjadal

Hið ferðaglaða Leikfélag Hólmavíkur leggur í langferð um næstu helgi og sýnir leikritið Viltu finna milljón? í Frumleikhúsinu í Keflavík á laugardagskvöld og Brautartungu í Lundarreykjadal á sunnudagskvöld. Hefjast báðar sýningar kl. 20:00. Eftir þessa sýningarhelgi er síðan aðeins eftir lokasýningin í Trékyllisvík 16. júní. Ástæðan fyrir staðarvalinu að þessu sinni er í og með sú að eftir þessar sýningar hefur verkið verið sýnt á heimaslóðum allra leikkvennanna sem taka þátt í uppsetningunni. Þegar hefur verið sýnt á Hólmavík, Hvammstanga, Hrísey og Siglufirði við góðar undirtektir. Strandamenn nær og fjær og áhugamenn um fjöruga farsa eru hvattir til að láta sýninguna ekki fram hjá sér fara.