24/04/2024

Vill einhver sjá um spurningakeppni?

Undanfarin fimm ár hefur Sauðfjársetur á Ströndum staðið fyrir Spurningakeppni Strandamanna í febrúar og mars. Keppnin hefur reynst afar vinsæl afþreying fyrir Strandamenn í svartasta skammdeginu. Að sögn Arnars S. Jónssonar, framkvæmdastjóra Sauðfjárseturs á Ströndum, er hins vegar ekki öruggt að keppnin verði haldin í ár. Í samtali við strandir.saudfjarsetur.is sagði Arnar að það yrði leitt að sjá keppnina falla niður, en ástæðan fyrir því að keppnishaldið sé í voða sé sú að hann hafi ekki tíma til að halda utan um keppnina sjálfur vegna mikilla anna. Þó sé mikilvægt að leita allra leiða til að keppnin verði haldin: „Nú er tækifærið fyrir aðra áhugasama aðila að taka við keflinu, þó ekki væri nema á þessu ári.“

„Félagasamtökum á svæðinu er velkomið að halda keppnina í samráði við Sauðfjársetrið og það kemur einnig vel til greina að greiða þóknun til einstaklinga sem vilja halda utan um keppnina undir flaggi Sauðfjársetursins. Það þarf ekkert endilega að hafa sextán lið eða fjögur keppniskvöld – það væri alveg eins hægt að hafa hámark átta lið og halda þannig tvö kvöld. Allar tæknigræjur, þekking, markaðssetning og fleira standa áhugasömum keppnishöldurum til boða af hálfu Sauðfjársetursins og hægt er að semja um hvaða fyrirkomulag sem er – menn og konur sem vilja skoða málið ættu endilega að hafa samband,“ sagði Arnar, en hann hefur stjórnað keppninni þrisvar sinnum. Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Jón Jónsson hafa einnig stjórnað keppninni í gegnum tíðina.

Hægt er að fræðast nánar um keppnina á vefsvæði Sauðfjársetursins, en áhugasömum um keppnishald er bent á að hafa samband við Arnar í addibro@jonsson.is eða í síma 661-2009.