12/09/2024

Vilja efla sýslumannsembættin

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur nú sent frá sér ályktun um nýskipan lögreglumála á Vestfjörðum. Í henni er ítrekað mikilvægi þess að sýslumannsembætti á Vestfjörðum verði efld, þrátt fyrir fyrirhugaðan tilflutning á stjórn löggæslunnar. Einnig er mótmælt hugmyndum um færslu á lögreglustjórn út fyrir fjórðunginn. Ljóst má þó vera að Strandamenn eru tvístígandi gagnvart þeirri tillögu, vilja flestir helst hafa lögreglustjórnina áfram á Ströndum. Ef hún verður flutt á annað borð er hins vegar töluvert lengra til Ísafjarðar en í Borgarnes. Ályktunin fylgir hér að neðan og vangaveltur um vegalengdir.


Vegalendir á Ströndum til nálægra bæjarfélaga

Frá Hólmavík til Borgarness eru 200 kílómetrar um Holtavörðuheiði, en 161 um Tröllatunguheiði sem er um það bil sú vegalengd sem verður líka eftir vegagerð um Arnkötludal. Á Ísafjörð frá Hólmavík eru 224 km um Hestakleif (eða Eyrarfjall) og lengra þegar sá vegur er lokaður. Vekur athygli að Patreksfjörður er jafn nálægt eða 225 km og þar er fyrirhuguð vegagerð sem styttir leiðina. Blönduós er líka nær en Ísafjörður, en þangað eru 200 kílómetrar.

Frá Norðurfirði á Ströndum er nú 307 km á Ísafjörð um Hestakleif og 265 um Tröllatunguheiði í Borgarnes. 304 km eru um Holtavörðuheiði í Borgarnes. Frá Borðeyri eru 97 km í Borgarnes, en 326 á Ísafjörð um Steingrímsfjarðarheiði og Hestakleif. Ljóst má því vera að ekkert óeðlilegt er að Strandamenn eigi samstarf við nágranna sína á Norðurlandi vestra og Vesturlandi, rétt eins og Vestfjörðum.

Til fróðleiks má geta þess, því villandi upplýsingar hafa komið fram í fjölmiðlum upp á síðkastið um vegalengdir á Ströndum og gert heldur meira úr þeim en raunin er, að frá Borðeyri eru 105 km til Hólmavíkur og þaðan eru 103 km til viðbótar norður í Norðurfjörð.

Ályktunin Fjórðungssambandsins er svohljóðandi:

"Á fundi stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga þann 29. nóvember 2005 var samþykkt eftirfarandi ályktun um tillögur framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála:

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga árétta mikilvægi þess að þjónusta við Vestfirðinga aukist fremur en minnki, við breytinguna.  Sýslumannsembættin á Vestfjörðum fái til sín aukin verkefni og verði þannig efld við tilfærslu löggæslu.

Stjórn Fjórðungssambandsins fagnar því þeim viðhorfum sem Dómsmálaráðuneytið hefur kynnt í umræðu um þetta verkefni. En á kynningarfundi sem haldinn var á Ísafirði, þann 16. nóvember s.l., kom skýrt fram hjá formanni nefndarinnar að það væri einlægur vilji Dómsmálaráðuneytisins, að færa verkefni til sýslumannsembættanna og nýta með þeim hætti þau tækifæri sem skapast við að færa löggæsluna frá embættunum. Stjórn Fjórðungssambandsins lýsir sig reiðubúna til samstarfs við hlutaðeigandi, þ.e. sýslumenn á Vestfjörðum og Dómsmálaráðuneytið um að finna embættunum ný verkefni. Hér verði einnig afar mikilvægt að þjónustan verði ekki dýrari fyrir vikið og má í því sambandi m.a. nefna löggæslu vegna hátíðahalda, dansleikja eða annars skemmtanahalds.

Stjórn Fjórðungssambandsins vill hinsvegar gera athugsemd við tillögur um breytingar á löggæsluumdæmum. Stjórn Fjórðungssambandsins gerir hér þá kröfu að lögsagnarumdæmi Vestfjörðum eigi áfram að heyra undir embætti sem staðsett er/eru á Vestfjörðum. En undirstrikar að ein af meginforsendum slíkrar kröfu er að hraðað verði uppbyggingu heilsárssamganga og hringtengingu á gagnaflutningsneti um Vestfirði. 

Vestfirðir voru um langa hríð eitt kjördæmi og stjórnsýsla hefur til þessa verið byggð á þeim kjördæmamörkum. Þannig eru Vestfirðir eitt skattstjóra- og dómsumdæmi, einnig eiga sveitarfélög og íbúar í fjórðungnum með sér margháttað samstarf og samvinnu á vettvangi fjórðungsins. Tillögur um nýskipan lögreglumála ganga á skjön við þessi tengsl, auk þess sem störf og ábyrgð færist úr fjórðungnum til annarra landshluta m.a. með að landfræðilegur hluti Vestfjarða verði færður undir embætti utan þeirra."