28/03/2024

Varað við erlendri símasölu

Í fréttum Morgublaðsins kemur fram að forsvarsmenn tölvufyrirtækisins Snerpu á Ísafirði hafa sent út aðvörun út af símasöluherferð erlends netfyrirtækis. Sá sem hringir segist vera að aðstoða við skráningu á nafni viðkomandi í lénaskrá og starfa fyrir fyrirtæki sem heitir Federal Bureau of Domain Names. Telja forsvarsmenn Snerpu að um svikamyllu sé að ræða. Fyrirtæki á Ströndum hafa verið að fá hringingu frá þessu fyrirtæki, m.a. hefur ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is svarað tvisvar síðasta sólarhringinn í síma Félagsheimilisins á Hólmavík og rætt við mjög ágengan sölumann frá fyrirtækinu sem vill ólmur fá hinar aðskiljanlegustu upplýsingar um fyrirtækið Strandakúnst – Community Centre in Hólmavík.


Snerpa ráðleggur fólki eindregið að hunsa „þjónustu“ fyrirtækisins og eins og ávallt beri að viðhafa varúð við viðskipti við þá sem gera óumbeðin tilboð um þjónustu sem er óskilgreind. Fólk skuli alls ekki gefa upp greiðsluupplýsingar eins og kortanúmer eða annað, jafnvel þó viðkomandi segi það aðeins vera til staðfestingar á því hver hann sé.