12/11/2024

Útboð hafin á ný hjá Vegagerðinni

Útboð eru hafin að nýju hjá Vegagerðinni, eftir að hafa verið stöðvuð í haust að undirlagi ríkisstjórnarinnar vegna óvissu í efnahagsmálum. Í síðustu viku var boðið út eitt verk og tvö bættust við í dag. Annað þeirra verkefni er á Vestfjörðum, en Vegagerðin óskar eftir tilboðum í endurgerð um 15,9 km kafla á Vestfjarðavegi (60), frá Þverá í Kjálkafirði að slitlagsenda við Þingmannaá í Vatnsfirði. Verkinu skal að fullu lokið 30. nóvember 2010. Þetta kemur fram á www.vegagerdin.is. Strandamenn bíða spenntir eftir útboðum á verkefnum á Strandavegi (643) á Veiðileysuhálsi, í Bjarnarfirði og innst í Steingrímsfirði sem öll eru á dagskrá á árinu (eða síðasta ári) samkvæmt gildandi Vegaáætlun.

Helstu magntölur eru:

Skering samtals 396.000m3
-þar af bergskering 136.000m3
Fylling 210.000m3
Fláafleygar 123.000m3
Rofvörn 19.000m3
Neðra burðarlag 63.000m3
Efra burðarlag 26.500m3
Tvöföld klæðing 121.000m2
Frágangur fláa 250.000m2
Lögn ræsa 1.400m

Útboðsgögn verða seld hjá Vegagerðinni Dagverðardal á Ísafirði og Borgartúni 7 í Reykjavík (móttaka) frá og með mánudeginum 2. febrúar 2009. Verð útboðsgagna er 4.000 kr. Skila skal tilboðum á sömu stöðum fyrir kl 14:00 þriðjudaginn 24. febrúar og verða þau opnuð þar kl. 14:15 þann dag.