30/03/2023

Upplýsingamiðstöðin komin á fullt

Upplýsinga-miðstöðin og tjaldsvæðið á Hólmavík hefur tekið til starfa af fullum krafti og byrjar sumarið ljómandi vel. Verið er að vinna að umbótum á tjaldsvæðinu, ganga frá losun fyrir húsbíla, leggja raftengla fyrir húsbíla og fleiri hefðbundin vorverk. Aðstaðan er alltaf að batna í kringum tjaldsvæðið sem var stækkað töluvert á síðasta ári og verður sá hluti tekin í notkun nú í sumar. Íbúar á Hólmavík hafa tekið til hendinni og starfsmenn hreppsins fylgja því átaki vel eftir, enda er ætlunin að allt verði orðið ljómandi fínt fyrir bæjarhátíð sem haldin verður á Hólmavík í fyrsta skipti í sumar – Hamingjudagar á Hólmavík 30. júní til 3. júlí.

Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að senda bæklinga á Upplýsingamiðstöðina og jafnframt að senda upplýsingar um atburði á netfangið info@holmavik.is, en ætlunin er að gefa út á næstunni fjölfaldað atburðadagatal fyrir Strandir eins og áður.

Eins er handverksfólk hvatt til að koma varningi sínum í sölubúð Strandakúnstar í Upplýsingamiðstöðinni sem allra fyrst.

Frá tjaldsvæðinu á Hólmavík – splunkuný útisundlaugin virðist hafa töluvert aðdráttarafl – ljósm. Jón Jónsson