28/03/2024

Uppgangur á Drangsnesi

Sunna Einarsdóttir og Halldór Höskuldsson eru í Perlunni að kynna nýjan gistimöguleika á Drangsnesi sem þau opna í vor, Gistiþjónustu Sunnu að Holtagötu 10. Þeim lýst ljómandi vel að gerast ferðaþjónar, enda er töluverð þróun og uppgangur í ferðaþjónustunni á Drangsnesi. Þar ber hæst splunkunýja og glæsilega útisundlaug sem opnaði síðasta sumar, með heitum potti, vaðlaug og gufubaði.

Einnig eru í boði áætlunarferðir í Grímsey með Sundhana ST-3 yfir sumarið og með honum er einnig hægt að komast á sjóstöng og í aðrar skoðunarferðir. Ásbjörn Magnússon skipstjóri á Sundhana og Valgerður kona hans hyggjast síðan einnig opna gistingu í sumar í tveimur húsum, þannig að ekki verður vandamál með gistiplássið á Drangsnesi í sumar.

Enn er ónefnd árleg Bryggjuhátíð Drangsnesinga, en í ár eru 10 ár síðan hún var fyrst haldin. Þar kemur vel í ljós að Strandamenn kunna að skemmta sér og skemmtunin er fjölsótt og vinsæl. Bryggjuhátíðin er 22. júlí í sumar.

Ljósm. Dagrún Ósk og Jón Jónsson