14/12/2024

Undirbúningur fyrir Hamingjudaga hafinn

Undirbúningur fyrir bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík er þegar hafinn, að því er fram kemur á fréttavefnum bb.is. Ákveðið hefur verið að hátíðin verði haldin 2.-4. júlí og verður sjálfsagt mikið í hana lagt nú á 120 ára afmæli Hólmavíkur. Menningarmálanefnd Strandabyggðar hefur hvatt sveitarstjórn til að ráða framkvæmdastjóra fyrir hátíðina sem allra fyrst og einnig bent á að þar sem sveitarstjórnarkosningar eru 29. maí verði skipt um nefndarmenn þegar undirbúningur fyrir Hamingjudaga er á lokastigi. Heppilegt geti verið að núverandi Menningarmálanefnd starfi fram yfir Hamingjudaga, enda hafi hún ávallt gegnt mikilvægu hlutverki í lokaundirbúningnum.

Á fundi Menningarmálanefndar kom jafnframt fram að sala á varningi Hamingjudaga hafi verið óskaplega lítil á síðasta ári. Þar var einnig rætt um fjölmiðlaumfjöllun og aðsókn að hátíðinni. Fram komu vangaveltur um að veður og annað sem setti strik í reikninginn árið 2008 geti orðið til þess að talsverð vinna verði að markaðssetja hátíðina upp á nýtt.

Vefur Hamingjudaga er á vefslóðinni www.hamingjudagar.is.