28/03/2024

Um ferðaþjónustu, atvinnumál og fjármál Strandabyggðar

Svar við grein Elínar Gróu Karlsdóttur

Aðsend grein: Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar 
Fimmtudaginn 1. mars s.l. birtist grein á strandir.saudfjarsetur.is eftir Elínu Gróu Karlsdóttur þar sem hún lýsir áhyggjum sínum vegna stöðu fyrirtækja hér á Hólmavík og skorti á stuðningi við þau frá íbúum og sveitarfélagi. Einnig lýsir hún yfir þungum áhyggjum á bágri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem hún telur stafa af óábyrgri fjármálastjórnum og gamalsdags vinnubrögðum við áætlanagerð. Vil ég leitast við að svara Elínu Gróu varðandi þá þætti er snúa að sveitarfélaginu og rekstri þess.

Í grein Elínar Gróu telur hún að gleymst hafi í allri umræðu um ferðaþjónustu og atvinnumál stuðningur, eða skortur á honum, við þau fyrirtæki sem eru þegar í rekstri og tilgreinir þrjú fyrirtæki, sem nú eru til sölu hér á Hólmavík, máli sínu til stuðnings þó ástæður fyrir sölunni geti verið mismunandi.  Sem og þær eru og ég leyfi mér að fullyrða að ástæða fyrir sölu Gistiheimilisins á Borgabraut og veitingastaðarins Café Riis er ekki stuðningsleysi sveitarfélagsins við rekstur þeirra.  Þar liggja allt aðrar ástæður að baki.

Þá segir í greininni að hún telji ekki rétt að styrkja fyrirtæki með beinum fjárframlögum en það sé ýmislegt sem sveitarfélagið geti gert til að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækja. Ég er sammála að ýmislegt sé hægt að gera en spyr á móti, hefur Elín Gróa kynnt sér hvort og þá hvernig Strandabyggð hefur stutt við bakið á þeim fyrirtækjum sem hér starfa með beinum og óbeinum hætti? Þau ár sem ég hef starfað hér hefur verið fullur skilningur hjá sveitarstjórnarmönnum á nauðsyn þess að hér sé gott atvinnuástand og hefur verið reynt að sýna þeim fyrirtækjum sem hafa átt í tímabundum erfiðleikum stuðning með ýmsu móti þegar leitað hefur verið eftir. Má þar nefna skuldbreytingu, lægri þjónustugjöld s.s. á vatnsgjaldi og niðurfellingu skulda. En það má líka velta þeirri spurningu upp hversu lengi sveitarfélög eigi að styðja við hvert einstakt fyrirtæki, eitt ár, þrjú ár, fimm ár eða lengur?  

Og þá komum við að fjármálum sveitarfélagsins. Fyrst vil ég segja að fjárhagsstaða flest allra sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, sem og nokkurra innan þess, hefur farið versnandi ár frá ári og sífellt fleiri sveitarfélög lenda undir smásjá Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Margar ástæður liggja þar að baki og ætla ég ekki að tíunda þær hér enda margoft búið að fjalla um þær í fjölmiðlum sem og fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.  En það hvarflar ekki að mér að kenna ábyrgðarlausum stjórnendum eða gamaldags vinnubrögðum við fjárhagsáætlanagerð um, það gæti átt við ef um einstaka sveitarfélag væri að ræða en varla skýring á slæmri fjárhagsstöðu flest allra sveitarfélaga á landinu.  

Ég tel að fjármálastjórnunin hér í Strandabyggð sé í mjög góðu lagi þó ég virðist ekki hafa gert mig skiljanlega á íbúafundinum í janúar s.l. hvað það varðar og biðst ég velvirðingar á því hér með.  Og hafi ég sagt að sveitarfélagið væri fjármagnað með lántökum upp á 40-50 millj. kr. á hverju ári þá skal það leiðrétt hér og nú.  Ég hélt að ég hefði sagt að það vantaði þá fjárhæð til að endar næðu saman árið 2006 en jafnframt að engin lántaka hefði verið það árið og samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árin 2007 til 2010 væri ekki gert ráð fyrir neinni lántöku.  Þegar sleppt hefur verið rekstrarliðum sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi þá hefur verið hækkun á handbæru fé milli ára í rekstri sveitarfélagsins þó ekki sé um háa fjárhæð að ræða.  Og til að fyrirbyggja allan misskilning skal ítrekað að ekki er verið að auka á skuldir sveitarfélagsins heldur greiða niður, þó svo að lánshæfi sveitarfélagsins sé gott.

Verið er að vinna að því hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að fá leiðréttingu á tekjustofnum sveitarfélaga og vonandi að hún skili sér fljótlega.  En við sitjum ekki með hendur í skauti og bíðum eftir að þeirri vinnu ljúki því verið að leita leiða til að styrkja innviði og greiða götu fyrir nýjum atvinnutækifærum hér á svæðinu.  Með því gætum við vonandi fjölgað íbúum hér því það er helsta ógnun okkar hér í Strandabyggð, fækkun íbúa ár frá ári en ekki aukning skulda.  Og ef við færum að leggja auknar álögur á íbúa sveitarfélagsins þá held ég að æ fleiri myndu taka þá ákvörðun að flytja frá sveitarfélaginu.  

Það er sjálfsagt að endurtaka það að Strandabyggð er eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem ekki þurfti að fjármagna rekstur og framkvæmdir með lántökum á síðasta ári.  Og sé litið til þess sem hefur verið gert hér á undanförnum árum þá held ég að við getum verið sátt við okkar hlut því ekki hefur verið nein stöðnun í framkvæmdum þrátt fyrir erfiðan rekstur.  Það er búið að byggja upp veglega íþróttamiðstöð, stækka leikskólann, bæta við löndunarkrana, koma vatnsveitumálum í gott horf, gera sparkvöll, stækka tjaldsvæðið og bæta þar þjónustuna, bæta þjónustu í upplýsingamiðstöð, kaupa skólarútu og skólabifreið og endurnýja húsgögn í grunnskólanum svo eitthvað sé nefnt.  Sem sagt, það hefur verið unnið að því að bæta þjónustu án þess að stefna fjárhag sveitarfélagsins í hættu og verður þeirri stefnu áfram framfylgt.

Ásdís Leifsdóttir
sveitarstjóri Strandabyggðar