11/10/2024

Um „byggðastuðning“, byggðakvóta og atvinnumál

Gunnlaugur Sighvatsson.Aðsend grein: Gunnlaugur Sighvatsson.
Margt hefur áhrif á það hvernig til tekst með rekstur fyrirtækja, staða viðkomandi greinar og ytra umhverfi hefur mikil áhrif, ákvarðanir stjórnar og stjórnenda ekki síður, gæði og magn vinnuframlags starfsmanna hefur mikil áhrif og ýmislegt fleira. Stuðningur ríkis og sveitarfélaga við atvinnulíf og skilningur á þörfum þess er einnig lykilþáttur í því hvaða möguleika atvinnufyrirtæki eiga á því að stunda sinn rekstur og þá sérstaklega í hinum dreifðu byggðum landsins eins og sagt er. Ég ætla að beina sjónum mínum í þessari grein að þessum þætti, þ.e. byggðastuðningi og viðra skoðanir mínar á eðli hans og framkvæmd. Þar sem ég starfa í sjávarútvegi vil ég taka sem dæmi byggðakvóta svokallaðan og m.a. nýlega samþykktar úthlutunarreglur Hólmavíkurhrepps.

Ég vil taka skýrt fram að þessi grein byggir á mínum persónulegu skoðunum eingöngu og er ég ekki hér talsmaður þess fyrirtækis sem ég starfa hjá – hvorki samstarfsmanna eða eigenda.

Almennt um byggðastuðning

Fyrst er að að lýsa því yfir að ég er mótfallinn öllum sértækum aðgerðum í nafni byggðastuðning til samkeppnisatvinnugreina. Björgunaraðgerðir stjórnvalda til illra staddra fyrirtækja, í formi víkjandi lána, kvótaúthlutana og með ýmsum öðrum hætti, eru til þess eins fallnar að skekkja samkeppni og bitna á þeim fyrirtækjum sem betur er ástatt um. Slíkar aðgerðir verða líka sjaldnast til þess að rekstur viðkomandi fyrirtækja batni, heldur er oftar en ekki um gálgafrest að ræða.

Byggðastuðningur á fremur að beinast að því að bæta rekstrarumhverfi allra fyrirtækja í ákveðinni starfsgrein eða á ákveðnu svæði, eða leiðrétta aðstöðumun. Ég teldi þá staðreynd að byggðar eru og starfræktar útflutningshafnir einungis á fáum stöðum á landinu til dæmis vera fullgild rök fyrir niðurgreiðslu flutningskostnaðar á svæðum sem búa við hærri flutningskostnað af þessum sökum. Annað dæmi um góðan stuðning við atvinnulíf á landsbyggðinni er það ákvæði sem lengi hefur verið í gildi að sjávarútvegsfyrirtæki geti sótt um endurgreiðslu á hluta af launum starfsfólks, úr atvinnuleysistryggingasjóði, vegna tímabundins hráefnisskorts. Fyrirtæki á litlu atvinnusvæði eru í enn meiri þörf fyrir að haldast vel á sínu starfsfólki en öðrum og því mikilvægt að geta haldið fólki á launum þó uppihald verði í skamman tíma. Þetta svigrúm hefur því verið mjög mikilvægur stuðningur fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi og nýtist yfirleitt smærri fyrirtækjum best, þ.e. þeim sem búa við mest óöryggi í hráefnismálum. Slík fyrirtæki eru yfirleitt staðsett í smærri sjávarþorpum og því leitar þessi stuðningur þangað sem hans helst er þörf, án þess þó að mismuna neinum eða hafa óeðlileg áhrif á samkeppni þar sem allir geta nýtt sér ákvæðið.

Það sem byggðastuðningur ætti ekki síst að miða að er að ýta undir nýsköpun, þ.e. uppbyggingu nýrra atvinnugreina sem enn eru ekki orðnar að sjálfbærum atvinnuvegi þar sem lögmál frjálsrar samkeppni ríkir. Undirritaður þekkir slíka starfsemi í gegnum setu sína í stjórn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða (Atvest), sem með fjárframlagi frá Byggðastofnun er falið það hlutverk m.a. að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Slíkt starf er alltaf vandasamt og þá meðal annars hvernig fjármagni til slíkrar starfsemi er best varið. Togast þar á þörfin fyrir að byggja upp þekkingu á slíku starfi og því sterkan kjarna fyrir starfsemina og síðan að staðsetja starfsemina sem víðast í byggðum, þar sem uppsprettu hugmynda er henta viðkomandi svæði er helst að vænta.  Ánægjulegan árangur af starfi Atvest má sjá af þeim framkvæmdum sem nú standa yfir á Bíldudal við uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju.

Stuðningur við atvinnuþróunarstarfsemi, sem miðaði að því að skapa ný störf væri miklu eðlilegri leið en sú kvótaúthlutun sem gerð er í nafni byggðastuðnings. Ég leyfi mér hér að nefna tvær leiðir, sem báðar væru mun skynsamlegri byggðastuðningur að mínu mati, en sá háttur sem nú er hafður á úthlutun byggðakvóta, en kannski eru þær ekki raunhæfar:

1.   Í fyrsta lagi mætti sjá fyrir sér að sveitarfélögum væri gert kleift að leigja frá sér viðkomandi úthlutun (þar sem aðilar innan sveitarfélagsins hefðu forgang), gegn því að fjármunum væri varið í atvinnuþróunarstarf eða til styrkingar ákveðinna málaflokka sem eru í uppbyggingu, s.s. ferðamála.

2.   Í öðru lagi þætti mér reynandi að fá öllum byggðakvóta til sjávarbyggða á Vestfjörðum breytt í eldiskvóta, sem stuðla myndi að því að hraða uppbyggingu þorskeldis sem arðbærrar atvinnugreinar og gera skref í þeirri uppbyggingu markvissari. Þorskeldi getur hæglega orðið stóriðja Vestfirðinga í framtíðinni ef vel er á málum haldið og sjá mætti fyrir sér að félag eins og Atvest kæmi að skipulagningu og samræmingu slíks verkefnis.

Byggðakvóti

En byggðakvóti er staðreynd og honum úthlutað til byggðarlaga. Fyrst svo er, tel ég nauðsynlegt að sú úthlutun komi að sem mestu gagni (eða geri sem minnstan skaða) fyrir viðkomandi byggðalag. Sveitarstjórnum er úthlutað því vandasama verki að koma með tillögur að úthlutunarreglum og er mjög mikilvægt að þær vandi þá vinnu og láti hana miða að því að stuðla sem best að atvinnuuppbyggingu innan viðkomandi sveitarfélags. Þá er ég kominn að tillögu Hólmavíkurhrepps til Sjávarútvegsráðherra um úthlutun 69 tonna byggðakvóta inn til sveitarfélagins. Tillagan hljóðar svo:

„Úthluta skal til báta/skipa sem heimahöfn eiga á Hólmavík, landa aflanum í sinni heimahöfn og eigendur skráðir með búsetu í Hólmavíkurhreppi og eru skráðir þar þegar auglýstur umsóknarfrestur rennur út og hafi haft atvinnu af fiskveiðum s.l. fiskveiðiár. Ekki koma til greina þær útgerðir sem leigt eða selt hafa kvóta frá síðasta fiskveiðiári eða landað hafa utan heimahafnar nema gildar ástæður liggi fyrir. Úthlutun skal vera jöfn milli allra þeirra sem úthlutun fá, en ekki hlutfallsleg.“

Með hagsmuni sveitarfélagsins í huga er þetta afleit tillaga. Af hverju? Í fyrsta lagi er hvergi gert sem skilyrði fyrir úthlutun að afla skuli landað til vinnslu í sveitarfélaginu, né þeir settir í forgang sem það gera. Þá er í öðru lagi kveðið á um jafna úthlutun milli aðila sem úthlutun fá, ekki í hlutfalli við þá starfsemi sem fram fer. Allt þetta ber að sama brunni að svo virðist sem ekki sé litið á úthlutun byggðakvóta inn til sveitarfélagsins sem tækifæri til að ýta undir sem mesta atvinnustarfsemi og umsvif sem kostur er, fremur virðist litið á þetta sem beinan fjárstuðning til útgerða og jafnt á alla til að styggja nú ekki neinn. Jafn afleit leið til byggðastuðnings og sérstakur byggðakvóti er, þá er þetta afleit leið til að ráðstafa honum. Ég skil vel þann vanda sem sveitarstjórnir eru settar í við að semja úthlutunarreglur og vill ekki gerast of gagnrýninn á þá sem taka að sér það, oft á tíðum óþakkláta, verkefni að sitja í sveitarstjórn. En ég vil þó koma þeirri skoðun minni á framfæri að sveitarstjórnir eiga vissulega að reyna að láta slíka úthlutun nýtast sveitarfélaginu sem best.

Atvinnumál

Hvort tveggja ber að varast, að of mikil höfgi sígi á menn gagnvart atvinnumálum og að of miklar skýjaborgir séu byggðar úr nýjum hugmyndum. Þrátt fyrir að mikilvægt sé að ýta undir ný tækifæri er nefnilega oft nærtækast og árangursríkast að hlúa að því sem til staðar er og styrkja með þeim hætti grunngerð þess atvinnulífs sem er til staðar. Óbeinn stuðningur sveitarfélags við atvinnulíf er því einna mikilvægastur að mínu mati og snýr þá að því að skilningur sé á þörfum atvinnufyrirtækja og sveitarfélög setji sér stefnu í þeim málum.

Fyrir skemmstu boðuðu stjórn og stjórnendur Hólmadrangs ehf sveitarstjóra og hreppsnefndarfulltrúa á kynningarfund um starfssemi fyrirtækisins, þar sem m.a. var farið yfir stöðu mála í ýmsum málaflokkum sem snúa að samskiptum við sveitarfélagið og grein gerð fyrir framtíðaráherslum og þörfum fyrirtækisins. Á fyrrnefndum fundi var farið yfir málaflokka eins og vatnsveitumál, fráveitumál og umhverfismál svo eitthvað sé nefnt. Er það vilji minn sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins að bæta upplýsingamiðlun frá fyrirtækinu og ýta undir aukinn áhuga íbúa Hólmavíkur og Hólmavíkurhrepps á starfsemi þess, sem ég tel nokkuð mikilvæga. Ég hef því áform uppi um að slíkir upplýsingafundir með hreppsnefnd verði a.m.k. árlega og að fréttir af fyrirtækinu birtist hér á fréttavef stranda.is reglulega. Þar mátti m.a. nýlega lesa um hversu mikið tjón hlýst af því ef vatnsskortur verður, en það er mikið kappsmál að komið verði upp eftirlitskerfi með dælubúnaði og stöðu í vatnstanki til að auka líkur á að fyrr megi bregðast við og jafnvel koma í veg fyrir slíkt. Finnst mér það dæmi um mál sem Hólmavíkurhreppur ætti að setja ofarlega á blað í stuðningi sínum við núverandi atvinnustarfsemi, þ.e. að tryggja öryggi, gæði og magn afhendingar á vatni til kaupenda sinna.

Gunnlaugur Sighvatsson,
sjávarútvegsfræðingur