20/04/2024

Tryllist við tóna Sigur Rósar

Nýjasta hljómplata sveitarinnar Sigur Rós "Takk" hefur fengið prýðisdóma og tryllir áhangendur sveitarinnar, en nýja skífan er af mörgum talin albesta skífa hljómsveitarinnar og ríkir almennt mikil gleði með hana. Annar hundanna á Ytra-Ósi í Hólmavíkurhreppi hefur aftur á móti verið gjörsamlega miður sín alla liðna viku en ástæðan er sú að plata Sigur Rósar hefur verið plata vikunnar á Rás 2 og því fengið mikla spilun. Týra, sem er níu mánaða hvolpur af Border Collier kyni, gjörsamlega tryllist í orðsins fyllstu merkingu þegar söngvari sveitarinnar hefur upp raust sín og sest niður hvar sem hún stendur og spangólar tryllingslega út í loftið lögin á enda með makkahárin beinstíf út í loftið, svo eigandanum er nóg um.

"Ég var ekki alveg að skilja hegðan hundsins í byrjun vikunnar og mér stóð hreint ekki á sama" segir Drífa Hrólfsdóttir bóndi á Ytra-Ósi, "en hundurinn reisti kamb öðru hvoru yfir daginn og lét ófriðlega þar til hann settist niður og spangólaði ógurlega. Þegar líða fór á vikuna þá fór mig að gruna hvað amaði að tíkinni og komst að því að um leið og tónlist Sigur Rósar hófst þá fór um hundinn og hann tók upp á þessu ofboði".

Týra er eins og fyrr segir aðeins níu mánaða gömul og man því ekki eftir stórtónleikum Sigur Rósar á Galdrahátíð Strandagaldurs í Bjarnarfirði fyrir nokkrum árum. "Sem betur fer var hún ekki fædd, ég segi nú ekki annað. Hm?" segir Drífa, sem var á tónleikunum og viðurkennir að hún sé nú hrifnari af ðe lónlí blú bojs en Sigur Rós. "En ég er ósköp glöð að þessi vika er liðin og að við þurfum ekki að eiga jafn mikið von á þessum ósköpum í framtíðinni og vona bara að Týra litla gleymi þessum raunum sem fyrst og taki upp fyrra geðslag í smalamennskunni um helgina".


Týra reynir að jafna sig eftir síðasta æðiskastið