11/06/2023

Tökum þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV kjördæmi

Aðsend grein: Bryndís Friðgeirsdóttir
Frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV kjördæmi hafa verið að ferðast um kjördæmið undarfarnar vikur og farið á vinnustaði og hitt fólk á förnum vegi. Það hefur verið ánægjulegt að ferðast með þessum samhenta hópi sem stendur þétt saman þó samkeppnin um sætin sé hörð.  Það hlýtur að teljast einsdæmi hve samheldnin er mikil í hópnum enda eru hér á ferð flokksfélagar sem hafa það sameiginlega markmið að koma til áhrifa í vor  ríkisstjórn jafnaðar, réttlætis og samábyrgðar.   
 

Það sem gerir prófkjörið sérstakt er að frambjóðendum er ekki heimilt að gefa út efni eða auglýsa framboð sitt sérstaklega í fjölmiðlum. Kjördæmisráð sér um að gefa út sameiginlegt kynningarefni um frambjóðendur og halda kynningarfundi.  Þessar reglur koma í veg fyrir að fólk þurfi að eyða milljónum króna í kapphlaupið og því gefst fleirum kost á að taka þátt í prófkjörinu.  Kynningarefni varðandi frambjóðendur verður sent inn á öll heimili í kjördæminu á næstu dögum.
 
Prófkjörið er ekki aðeins opið flokksbundnum Samfylkingarfélögum heldur gefst fólki utan flokksins kostur á að taka þátt með því að lýsa yfir stuðningi við framboðið í kjördæminu.  Stuðningsyfirlýsingarnar verða ekki notataðar af flokknum heldur verður þeim fargað eftir prófkjörið.  Á þennan hátt er kjósendum sem búa í kjördæminu og eru ekki flokksbundnir gefinn kostur á að hafa áhrif á uppröðun listans.  Þeir sem verða ekki heima á kjördag eða búa fjarri kjörstöðum geta fengið kjörgögn send til sín í pósti með því að hafa samband við skrifstofu Samfylkingarinnar eða einstaka frambjóðendur. 
 
Ágætu íbúar í NV kjördæmi.  Takið þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar sem fram fer dagana 28. – 29. október nk.  Notið tækifærið, hafið áhrif og takið þátt í að raða upp sigurstranglegum lista fyrir alþingiskosningarnar í vor.  Það skiptir máli ef við ætlum að koma til valda velfreðarstjórn sem hefur að leiðarljósi; jöfnuð, réttlæti og samábyrgð.
 
Bryndís Friðgeirsdóttir
Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ og býður sig fram í 2. – 3. sæti Samfylkingarinnar í NV kjördæmi.