24/04/2024

Tilboð opnuð í Strandaveg

Í gær voru opnuð tilboð í endurlögn Strandavegar (643) í Strandabyggð og Kaldrananeshreppi. Vegarkaflinn er við norðanverðan Steingrímsfjörð, frá Geirmundarstaðavegi að slitlagsenda rétt innan Hálsgötu og er 4 km að lengd. Tvö tilboð bárust og voru bæði yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar upp á tæpar 92,5 milljónir. Skagfirskir verktakar buðu 102,7 milljónir í verkefnið og KNH ehf á Ísafirði bauð tæpar 127,8 milljónir. Nokkra athygli vakti þegar verkið var boðið út að þeirri vegagerð sem eftir er á milli Hólmavíkur og Drangsness og er samtals 6,5 km væri skipt í tvo hluta. Þetta skýrist væntanlega af fjárheimildum á árinu, því varla er talið hagstæðara að skipta fyrirliggjandi verki þannig upp.

Verkinu skal vera að fullu lokið fyrir 1. október 2008. Útlögn klæðingar skal þó að fullu lokið 1. september 2008.