14/12/2024

Þorrablót á Borðeyri 14. febrúar

Þorrablót á BorðeyriNú er tilvalið að taka frá laugardaginn 14. febrúar næstkomandi því þá verður haldið þorrablót á Borðeyri ef guð lofar. Útlit er fyrir gott veður þannig að það ætti ekki að vera vandamál. Hljómsveit “Marinós” leikur fyrir dansi og Einar Georg verður með annál ársins svo eitthvað sé nefnt. Eru Strandamenn, vinir þeirra og velunnarar, hvattir til að hrista nú af sér hugleiðingar um stýrivexti, lánskjaravísitölu og verðbólgu og allt þetta "helvítis fokking fokk" og mæta kátir á blótið. Skemmtunin verður nánar auglýst síðar er varðar miðapantanir o.fl.

Svona til að hita aðeins upp þá fylgir hér ein lítil saga:

Ónefndur bóndi varð fyrir því óláni að eitt af hans hrossum fékk slæman skurð á læri. Hann hafði samband við dýralækni sem kom og saumaði skurðinn saman og bjó um sárið. Að því loknu ráðlagði hann bónda að skipta um umbúðir á sárinu reglulega.

Ég á ekkert til þess, svaraði bóndi. Þú verður þér bara út um það, dömubindi henta vel sem umbúðir, sagði dýralæknirinn. 

Bóndi gerði sér því fljótlega ferð í verslun sem seldi dömubindi. Þegar hann mætir þar spyr afgreiðslukonan: Get ég aðstoðað? Já, svarar bóndi, mig vantar dömubindi. Hvaða stærð má bjóða þér? spyr afgreiðslukonan. Þá svarar bóndi: Það hef ég ekki hugmynd um, en hitt veit ég að rifan er fjórtán sentimetra löng.