13/12/2024

Þjóðfræðistofa á súpufundi fimmtudaginn 30. apríl

Kristinn Schram forstöðumaður Þjóðfræðistofu mun kynna stofuna og þau verkefni
sem hún stendur fyrir. Þjóðfræðistofa hóf starfsemi á Hólmavík á síðasta ári og
er afrakstur vinnu Strandagaldurs ses við uppbyggingu fræðaseturs á Ströndum.
Þjóðfræðistofa er rannsóknarstofnun og fræðasetur sem sinnir rannsóknum og
miðlun á þjóðfræði og tengdum greinum jafnt innanlands sem utan. Innan ramma
Þjóðfræðistofu er unnið að rannsóknar- og miðlunarverkefnum um íslenska
þjóðfræði og margvíslegum samvinnuverkefnum á sviði fræða, menningar og lista.
Fræðasetrið stendur fyrir viðburðum bæði á höfuðstöðvum sínum á Ströndum sem
annars staðar á landi.


Þetta verður þrettándi súpufundurinn frá síðustu áramótum þar sem fjallað er um
atvinnu- og menningarmál á Ströndum. Súpufundirnir eru að venju á Café Riis á
Hólmavík og standa frá kl. 12:00 til 13:00.

Tilgangur með fundunum er að
auka vitneskju heimamanna um fjölbreytt atvinnulíf á Ströndum og ekki síður að
efla skilning á milli atvinnugreina með því að leiða saman frumatvinnugreinarnar
og nýsköpun í atvinnulífi.

Stefnt er að því að opna atvinnu- og
menningarmálasýningu í Félagsheimilinu á Hólmavík á vordögum sem verður uppi
allt sumarið og mun undirstrika öflugt og fjörugt atvinnu- og mannlíf á
Ströndum. Það eru allir hjartanlega velkomnir og hvattir til að mæta á þessa
fróðlegu og skemmtilegu súpufundi á Hólmavík á fimmtudögum.