10/09/2024

Það er svo gaman að leika!

640-tan4
Aðsend grein: Jón Jónsson.
Um helgina verða tvær síðustu sýningarnar á gamanleikritinu Makalaus sambúð sem Leikfélag Hólmavíkur setti upp í vetur, sú fyrri í Bolungarvík föstudag 7. júní og sú seinni í félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík laugardaginn 8. júní. Báðar klukkan 20:00. Ég hef tekið þátt í allnokkrum uppsetningum á leikritum með þesssu ágæta félagi, leikið í sumum, leikstýrt tvisvar sinnum, samið eitt leikrit og tekið þátt í óteljandi skemmtidagskrám með fullt af góðu fólki. Þetta bras er raunar eitt mitt helsta áhugamál og ég er hreint ekki viss um að ég byggi á Ströndum ef Leikfélag Hólmavíkur væri ekki til.

Að sumu leyti er það leiklistin sjálf sem heillar, glíman við karakterinn á æfingatímanum, skemmtunin og spennan í kringum sýningar, hamingjan þegar áhorfendur eru ánægðir, dásamleg tilfinningin þegar manni sjálfum finnst að frábærlega hafi tekist til. Sæluhrollurinn þegar áhofendur gleðjast eða hryggjast akkúrat eins og að var stefnt.

Hitt skiptir ekki síður máli að í gegnum leiklistina kemst maður í töluvert mikil og góð kynni við annað fólk, kynnist ólíkum hliðum mannlífsins og margvíslegri stemmningu, bæði í mótlæti og meðbyr. Það er ekkert minna en frábært að deila með öðrum gleðinni sem skapast þegar stór hópur af fólki gerir sitt besta, leggst saman á eitt til að ná settu marki og hefur heilmikið fyrir því. Félagsskapurinn sem maður fær af því að starfa í leikfélagi við uppsetningu á leiksýningu er eiginlega engu líkur.

Og það er ótrúlega gaman að sýna. Þá bætast áhorfendur við og öll þeirra ólíku viðbrögð, hver sýning og salur gefur leikritinu nýja vídd. Leikfélag Hólmavíkur hefur alltaf verið duglegt að fara í leikferðir og það er eitt ævintýrið til. Ótrúlegustu uppákomur, gleði og gaman. Ég hef til að mynda farið í ógleymanlega ferð á Raufarhöfn með Glímuskjálfta og til Hríseyjar með Viltu finna milljón? Ég hef tekið þátt í ólýsanlegri sýningu á Landabruggi og ást í Reykjanesi við Djúp og frábærri sýningu á Með táning í tölvunni í Súðavík, eftir mikla fyrirhöfn í bæði skipti.

Og á sumum stöðum er skemmtilegra að sýna en annars staðar. Sýningin á Makalausri sambúð í Búðardal var stórfín og úrvals stemmning. Mér hefur líka alltaf fundist frábært að sýna í Króksfjarðarnesi, þar er einn minn uppáhalds sýningarstaður. Það er hlegið að öðrum hlutum á Drangsnesi en annars staðar, það er gaman að því. Og það er einstök upplifun að fara norður í Árneshrepp og sýna leikrit þar á litla sviðinu í félagsheimilinu í Trékyllisvík. Leikfélag Hólmavíkur hefur oft farið norður og sýnt síðustu sýningu á leikitunum sínum þar og fengið frábærar móttökur. Einstök upplifun. Hver vill ekki taka þátt í slíku?

Ég held að sýningin í Trékyllisvík laugardaginn 8. júní næstkomandi sé dálítil tímamótasýning í leiklistarbrasinu mínu. Það verði hundraðasta sýningin mín með Leikfélagi Hólmavíkur. Þetta gæti þó verið vitleysa í mér, eitthvað sé vitlaust talið, kannski hef ég gleymt einhverju leikriti, en ég held samt ekki. Á bak við þessi 100 sýningarkvöld eru allmargar ánægjulegar æfingar, sumar langar og strangar, kannski samtals svona sirka 72 vikur af lífi mínu þar sem æft er næstum á hverju kvöldi eftir vinnu og lengur um helgar. Ég sé ekki eftir einni einustu mínútu.

Lífið er leikur. Og það er list að lifa.

Jón Jónsson, áhugaleikari hjá Leikfélagi Hólmavíkur