19/09/2024

„Það er mikil stemmning fyrir hátíðinni“

Viðtal: Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Hamingjudaga.

Fréttamaður strandir.saudfjarsetur.is hitti framkvæmdastjóra Hamingjudaga á Hólmavík í dag og tók hann í stutt spjall um hátíðina sem að nálgast óðfluga. Nýlega var haldinn íbúafundur í Strandabyggð vegna hátíðarinnar, enda styttist óðfluga í skemmtunina. Hamingjudagar verða haldnir 1.-3. júlí í ár, en reyndar hefst dagskráin nokkuð fyrr og stendur nærri í heila viku að þessu sinni. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar þetta árið er Arnar Snæberg Jónsson og hlakkar hann mikið til. Nánari upplýsingar og dagskrá má nálgast á www.hamingjudagar.is.


Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir hátiðina?
Það er í ótrúlega mörg horn að líta, bæði við undirbúning og markaðssetningu. Það hefur komið mér á óvart hversu viðamikill undirbúningurinn er, en allir standa vel á bak við hátíðina og eru til í hvað sem er.

Hvernig gekk íbúafundurinn sem haldinn var á fimmtudaginn?
Hann gekk mjög vel, allir glaðir og kátir. Farið var yfir dagskrá Hamingjudaga og skýrt frá fyrstu drögum að henni. Svo var spjallað um skreytingar og undirbúning. Menn voru ánægðir með fyrstu drögin að dagskránni og voru bara spenntir.

Er mikið nýtt á dagskránni?
Það er nokkuð af nýjum atriðum. Það er til dæmis meira um námskeið og smiðjur sem eru hugsaðar til að gestir og íbúar geti nálgast hamingjuhugtakið betur. Þetta byrjar strax á þriðjudag. T.d. koma Karl Ágúst Úlfsson og Ásdís Olsen í heimsókn og halda smiðjur og trommuhring til að hjálpa fólki að nálgast hamingjuna og svo er námskeið í hláturjóga. Svo verður Jón Víðis töframaður með smiðjur fyrir yngri kynslóðina. Svo er fullt annað að gerast. Eitt það merkilegasta er að frumsýnt verður nýtt íslenskt leikrit, einleikur sem atvinnuleikarinn Smári Gunnarsson frá Hólmavík hefur samið og leikur. Þar er sagt frá skjaldbökuævintýrinu 1963, þegar Einar Hansen dró risaskjaldböku að landi á Hólmavík.

Verður 16 ára ball?
Já, það er stefnan. Það verður ball í félagsheimilinu með Geirmundi Valtýssyni á laugardagskvöldið, 16 ára aldurstakmark.

Hverjir eru skreytingastjórar?
Í hverju hverfi eru skreytingastjórar, en þeir eiga svo sem ekkert að stjórna skreytingunum. Þeir kalla íbúa í sínu hverfi  saman á fund og fá menn til að skipuleggja og gera það sem allir verða að hjálpast að með. Í sveitinni eða gula hverfinu er Steinunn Þorsteinsdóttir skreytingastjóri, í rauða hverfinu eru það systurnar Jóhanna og Aðalbjörg Guðbrandsdætur og í bláa hverfinu eru það systurnar Ingibjörg og Hildur Emilsdætur. Í appelsínugula hverfinu eru Ingibjörg Benediktsdóttir og Sigurrós Þórðardóttir. Þetta eru allt konur, eins og menn taka eftir.

Hvað eiga karlarnir þá að gera?Ein hugmyndin er að hafa karla sem skreytingastjóra eitt árið og konur annað árið. Annars eru karlarnir líka með hlutverk sem er eins konar mótvægi við þessu. Það eru nefnilega bara karlar í dómnefndinni fyrir bestu skreytingarnar á árvissu kökuhlaðborði. Bræðurnir frá Grund hafa tekið að sér að vera í dómnefnd.

Eru allir til í tuskið?
Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem er ekki glaður og ánægður með hátíðina. Það er mikil stemmning fyrir Hamingjudögum, almenn jákvæðni og frískleiki sem einkennir viðhorfið til hátíðarinnar. Það er engin þreyta eða leiði í mannskapnum.

Hvernig verður veðrið? 
Það eru miklar líkur á mjög góðu veðri á Hamingjudögum í ár. Það hefur oft verið frekar leiðinlegt og þá aukast líkurnar á að við fáum gott veður núna. Það hefur líka verið svo dapurlegt veður í vor að það hlýtur að fara að lagast.

Gætirðu hugsað þér að gera þetta aftur?
Já, ég var nýlega ráðinn sem tómstundafulltrúi hjá Strandabyggð og í starfslýsingunni þar kemur fram að ég á að hafa umsjón með Hamingjudögum, svo að ég held að svo lengi sem að ég verð í þessu starfi, þá muni ég halda áfram að sjá um hátíðina.

Viltu segja eitthvað að lokum?
Já. Ég vil hvetja alla til að mæta á Hamingjudaga á Hólmavík og skemmta sér eins og þeir lifandi geta.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is þakkar Arnari kærlega fyrir spjallið og óskar honum góðs gengis og Strandamönnum öllum og gestum þeirra hamingjuríkrar hátíðar.