19/04/2024

Talsvert foktjón í Árneshreppi.

Mjög hvasst var í fyrrinótt í Árneshreppi og fóru öflugustu vindhviður yfir 50 m/sek á Gjögurflugvelli. Á fréttavefnum www.litlihjalli.is kemur fram að foktjón hafi orðið víða í hreppnum. Á Víganesi splundraðist gömul hlaða sem ekki var lengur í notkun og einnig fauk pallhús af bíl sem þar var geymt út í buskann, en það var bundið niður. Á Grænhól fauk járn af hlöðu eða gömlum fjárhúsum, þau voru ekki í notkun. Á Gjögri fauk geymsluskúr sem stóð fyrir ofan Gjögurbryggju og splundraðist og eitthvað fleira fauk. Á Norðurfirði fauk ýmislegt lauslegt og rúður brotnuðu í bíl og íbúðarhúsi. Einnig fóru ruslagámar af stað og kör og fleira.

Í dag hefur einnig verið hvasst í Árneshreppi og vindur farið yfir 30 m/sek í mestu vindhviðum.