20/04/2024

Sýndarumhyggja Framsóknar

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hefur verið því unga fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð dýr. Samkvæmt Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 15. mars, s.l. er greiðslubyrði íbúðaláns af lítilli íbúð 52-57% þyngri í dag en hún var vorið 2004. Það munar um ca. 310 þúsund króna aukin árleg útgjöld í heimilishaldi ungs fólks. Skuldir húsnæðiskaupenda hafa jafnframt hækkað vegna hækkaðs íbúðaverðs í kjölfar meira framboðs á lánsfé. Í svari við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, s.l. vetur kom fram að vaxtabætur hafa verið lækkaðar umtalsvert að raungildi frá árinu 2003, miðað við vísitölu neysluverðs. Vaxtabætur hafa jafnvel lækkað um meira en 200 milljónir að krónutölu á þessu tímabili.

Þyngri byrðar

Það þarf ekki að koma á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn standi þannig að verki en Samband ungra Sjálfstæðismanna hefur beinlínis ályktað að leggja beri niður vaxtabætur. En hvar er nú umhyggja Framsóknarflokksins fyrir ungum húsnæðiskaupendum, flokksins sem höfðaði sérstaklega til yngri kjósenda í einni af sinni víðfrægu, vel heppnuðu auglýsingaherferð fyrir síðustu kosningar, með loforðum um 90% lán til íbúðarkaupa? Það átti jú að létta öllum áhyggjum af herðum húsnæðiskaupenda, samkvæmt auglýsingunum glæsilegu. Annað hefur því miður komið á daginn eins og Morgunblaðið bendir réttilega á.

Vildu ekki liðsinni

Samfylkingin barðist hart gegn skerðingu vaxtabóta allt kjörtímabilið og hefði Framsókn þar getað nýtt sér liðsinni stjórnarandstöðunnar ef umhyggjan fyrir unga fólkinu hefði rist aðeins dýpra en raun ber vitni.  En þjónkunin við Sjálfstæðisflokkinn var öllu öðru yfirsterkari í því tilfelli sem svo mörgum öðrum á síðustu árum.  Því miður fyrir unga fólkið og því miður fyrir Framsóknarflokkinn.

Anna Kristín Gunnarsdóttir
þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi