18/04/2024

Sveitarstjórn samþykkti viðbótarreglur um byggðakvótann

Ásdís LeifsdóttirVegna fréttar um byggðakvóta hér á strandir.saudfjarsetur.is í gær, vill Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar benda á að "sveitarstjórn hefur ekki úthlutað né mun úthluta byggðakvóta til einstakra báta heldur var verið að setja viðbótarreglur við hina almennu reglu ráðuneytisins." Um er að ræða 140 þorskígildistonn sem Strandabyggð fær í byggðakvóta 2007-8. Um tölurnar sem birtust um úthlutun til einstakra báta í fréttinni og Magnús Gústafsson útgerðarmaður er ósáttur við, segir Ásdís: "Þær tölur sem þið hafið birt voru upplýsingar til sveitarstjórnar um hvernig hugsanleg úthlutun geti litið út í þorskígildum talið miðað við þær reglur sem verið var að setja og var tekið fram við afhendingu gagna að þessar tölur væru grófleg áætlun." 

Í fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar frá föstudeginum koma viðbótarreglurnar sem sveitarstjórn samþykkti fram, en þær voru í tveimur liðum:

"d) Hafi útgerð leigt frá sér meiri aflaheimildir en hún hefur leigt til sín í þorskígildum talið eða selt frá sér hærri aflahlutdeild en hefur verið keypt á fiskveiðiárinu 2006/2007 kemur hún ekki til greina við úthlutun byggðakvóta. Þá koma bátar/skip sem ekki hafa landað a.m.k. 1/3 af lönduðum afla í heimahöfn á fiskveiðiárinu 2006/2007 til greina við úthlutun byggðakvóta.

e) Skipta skal helming úthlutaðs byggðakvóta, 70 tonnum, jafnt milli þeirra báta/skipa sem rétt eiga á úthlutun skv. fyrrgreindum reglum en 70 tonnum skal úthlutað í hlutfalli við landaðan afla þeirra í heimahöfn á fiskveiðiárinu 2006/2007."

Liður d. var samþykktur samhljóða af sveitarstjórn Strandabyggðar, en liður e. með fjórum atkvæðum en einn sat hjá.