28/03/2024

Súpufundur í beinni útsendingu á netinu

Á vikulegum súpufundi í hádeginu í dag verður gerð tilraun til að senda fundinn
beint út á netinu. Það er vonast til að allir sem hafa einhversskonar
háhraðanetstengingu geti tengt sig inn á fundinn og fylgst með með hljóði, mynd
og glærusýningu sem notaðar verða við kynninguna. Þetta er tilraun til að íbúar
víðsvegar á Ströndum hafi betra tækifæri á að kynnast hverskyns starfsemi í
héraðinu sem fjallað er um á súpufundunum. Allir aðrir sem áhuga hafa á atvinnu-
og mannlífi á Ströndum er að sjálfsögðu velkomið að tengja sig við fundinn, en
það eiga 100 tölvur að geta tengt sig við kerfið í einu. Þá verður hægt að
leggja fram fyrirspurnir eftir erindið á sérstöku spjallborði í kerfinu. Það
verður ekki opið fyrir hljóð annarsstaðar frá nema frá fyrirlesara.

Það eina sem þarf að gera er að smella á eftirfarandi hlekk að neðan kl. 12:00
og vista síðan litla skrá sem beiðni kemur um og opna síðan. Sækið skrána hér. Notendum er bent á að
nota heyrnartól til að ná fram betri hljóðgæðum.

Á þessum súpufundi
verður fyrirtækið Strandalamb kynnt, en fyrir því standa hjónin Matthías Lýðsson
og Hafdís Sturlaugsdóttir í Húsavík við Steingrímsfjörð. Húsavíkurbúið er
þátttakandi í nýsköpunarverkefnum eins og Beint frá býli og Veisla að vestan.
Meðal afurða og söluvöru frá Húsavík hefur verið lambakjöt, lostalengjur og
reykt hangikjöt.