13/12/2024

Sumargleðin í Bragganum á fimmtudag

Sumargleði tónlistarútgáfunnar Kimi Records mun halda til Vestfjarða á fimmtudag fyrir verslunarmannahelgi og halda nokkra tónleika. Meðal annars verður Bragginn á Hólmavík heimsóttur á fimmtudag og munu m.a. koma fram hljómsveitirnar Retro Stefson, Reykjavík!, Nolo, Morðingjarnir og Snorri Helgason. Sumargleðin hefur ferðast um víðan völl í sumar og komið við á ýmsum bæjarhátíðum. Ýmsar hljómsveitir taka þátt og flestar eiga þær það sammerkt að vera undir hatti útgáfunnar Kimi Records.

Hljómsveitin Retro Stefson spilaði á Aldrei fór ég suður við góðan orðstír fyrir tveimur árum síðan. Morðingjarnir eiga eins og Retro Stefson miklu fylgi að fagna og Snorri Helgason var í hljómsveitinni Sprengjuhöllin, en gaf út sólóplötu fyrir síðustu jól og verða þetta fyrstu tónleikar hans með það efni. Hljómsveitin Nolo er skipuð tveimur ungum mönnum frá Reykjavík en sveitin gaf út plötu á síðasta ári, No lo-fi og fékk hún gríðargóða dóma. Reykjavík! þar vart að kynna en sveitin er nú að vinna að nýrri plötu.

Tónlistarútgáfan Kimi Records er tæplega þriggja ára gömul útgáfa sem stofnuð var á Akureyri af Baldvin Esra Einarssyni en starfandi framkvæmdastjóri útgáfunnar er Hnífsdælingurinn Kristján Freyr Halldórsson. Hljómsveitir sem gefa út undir merkjum Kimi Records eru m.a. Hjaltalín, Kimono, Sudden weather change, Sin fang bous, Stafrænn Hákon, seabear og Reykjavík!