28/03/2024

Strandhögg 2009 – óvenjuleg ráðstefna á Ströndum

Helgina 12.-14. júní verður haldin gríðarmikil ráðstefna á Ströndum og er það óvenjulegt við hana að fyrirlestrar verða fluttir út um víðan völl, ef svo má að orði komast. Það er Sagnfræðingafélag Íslands og Félag þjóðfræðinga á Íslandi sem standa fyrir ráðstefnunni, í samstarfi við Þjóðfræðistofu og ReykjavíkurAkademíuna. Áratugur er frá því fyrsta landsbyggðarráðstefna þessara félaga var haldin á Ísafirði, en nú er stefnan tekin á Strandir og með þátttöku heimamanna og valinkunnra fræðimanna verður lögð áhersla á framsögu á vettvangi – allt frá Konungsvörðu og norður í Krossneslaug. Ljóst er að þátttaka verður mjög góð.

Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Strandhögg“ en umfjöllunarefnið er tengsl Íslands við umheiminn; dreifbýlis og höfuðstaðar; norðurs og suðurs; jaðars og miðju, bæði í staðbundnu samhengi sem þverþjóðlegu. Meðal annars verður vikið að blómlegri síðari alda handritamenningu á jaðri Evrópu; iðkun ímynda norðursins á erlendri grundu; iðnaði erlendra þjóða á Íslandi 17. aldar í óþökk konungs; förumönnum og þjóðfræði á mörkum mennskunnar og framtíð fræða og lista á landsbyggðinni. Auk þess verður sagt frá þjóðfræði og sögu Stranda og rannsóknum um þau efni. 

Meðal atriða á dagskránni fyrir utan fyrirlestra á vettvangi eru móttökur á Sauðfjársetri og Þjóðfræðistofu, heimsóknir á veitingastaði, fræðaferð norður í Árneshrepp og málþing á Hólmavík.  Dagskrána má annars nálgast á vefsíðu Þjóðfræðistofu á slóðinni www.icef.is.

Skráning á ráðstefnuna fer fram á netfanginu irisel@hi.is. Verði er stillt í hóf. Þátttökugjald er 5000 kr. og eru allar rútuferðir (frá og til Reykjavíkur og á milli ráðstefnustaða) þar innifaldar. Allir eru velkomnir, atvinnumenn og áhugamenn í fræðunum, heimamenn og gestir.