20/04/2024

Strandagangan á morgun

Strandagangan, stærsta skíðamót ársins á Ströndum, verður haldin á morgun á Steingrímsfjarðar-heiði. Strandagangan er fyrsta gangan í mótaröðinni Íslandsgangan sem er haldin í vetur. Innan þeirrar mótaraðar er einnig keppt í stigakeppni milli héraða, þar sem gengnir kílómetrar hvers héraðs eru lagðir saman. Í fyrra voru Strandamenn í öðru sæti í þeirri keppni, en Ísfirðingar urðu í fyrsta sæti. Því eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta og taka þátt í göngunni á morgun og tryggja Ströndum fyrsta sætið í stigakeppni héraðanna. Spáin fyrir morgundaginn er ágæt, en síðustu daga hefur töluvert bætt við af snjó á heiðinni.

Brautin verður 5 km hringur, en 1 km hringur fyrir 12 ára og yngri. Hægt er að velja um eftirfarandi vegalengdir: 1 km, 5 km, 10 km og 20 km. Þrír fyrstu í hverjum flokki fá að launum bikara en þeir eru gefnir af KSH. Sá fyrsti í mark í 20 km hlýtur að launum Sigfúsarbikarinn glæsilega sem Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík gaf til minningar um Sigfús Ólafsson heimilislækni. Einnig eru veittir þátttökupeningar fyrir þá sem ekki ná í verðlaunasæti. Nánar á http://blog.central.is/sfstranda.

Strandagangan 2005 – ljósm. Ingimundur Pálsson