23/04/2024

Strandabyggð tekur á móti sjálfboðaliðum SEEDS

Á fundi Umhverfisnefndar Strandabyggðar var samþykkt að beina því til sveitarstjórnar að sækja um  að fá 10 manns frá sjálfboðaliðum SEEDS í umhverfisverkefni í Strandabyggð sumarið 2009. Um er að ræða átta manns auk tveggja verkstjóra. Verkefnið sem fara á í er viðhald á göngustígum í Kálfanesborgum. Sótt verður um að hópurinn starfi að verkefninu 8.-19. júní, undir leiðsögn verkstjóra sinna. Einn starfsmaður eða tengiliður verður frá sveitarfélaginu og hefur hann yfirumsjón með vinnunni, stýrir verkefninu og sér um að útvega verkfæri og efni til vinnunnar.

Umhverfisnefnd Strandabyggðar lagt svo til að hópurinn gisti í Grunnskólanum á Hólmavík, í einni til tveim skólastofum og hefði setustofu og eldhús til umráða. Hópurinn sér um matseld fyrir sig sjálfur og sveitarfélagið borgar 1200-1500 kr. pr. mann á dag. Hópurinn vinnur í 2 vikur í 6-7 klst. á dag á virkum dögum, en er í fríi helgina á milli.

Ætlast er til að sveitarfélagið tryggi þeim einhverja afþreyingu í frístundum, og leggjum við til að hópurinn fengi frítt í sund og í líkamsrækt, auk ákveðins tíma í íþróttasal. Það er einnig mikilvægt þar sem ekki er baðaðstaða í skólanum. Þá yrði skipulagt stutt ferðalag um nágrennið með þeim um helgina sem þau verða hér, eða leitað væri eftir einhverri afþreyingu hjá heimamönnum s.s. sjóferð eða hestaferð. Reiknað er með að afnot af skóla og íþróttahúsi sé án útgjalda og einnig að hægt væri að fá skólarútu lánaða til afnota fyrir eina stutta ferð um helgi.

Kostnaður sveitarfélagsins vegna fæðiskostnaðar er áætlaður 144-180 þúsund, en einnig þarf að útvega harpað efni vegna göngustígagerðar og verkfæri.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti síðan þessa tillögu Umhverfisnefndar á síðasta fundi sínum með 4 atkvæðum gegn 1.