25/04/2024

Strandabyggð opnar nýjan vef

Nú hefur verið tekin í notkun ný heimasíða Strandabyggðar á vefslóðinni www.strandabyggd.is en grunnur vefsins er hannaður af Snerpu á Ísafirði. Mun vefurinn leysa þann gamla af hólmi, en í tilkynningu á nýja vefnum kemur fram að hlutverk hans er þríþætt. Honum er í fyrsta lagi ætlað að geyma upplýsingar og gögn varðandi sveitarfélagið, rekstur þess og þjónustu, í öðru lagi að flytja fréttir úr héraðinu og í þriðja lagi að vera gagnabrunnur varðandi náttúru og sögu héraðsins.

Fyrsti þátturinn er kominn talsvert á veg en þó vantar enn upp á að allar upplýsingar séu komnar inn. Annar þátturinn verður spunninn jafnóðum eftir bestu getu en stefnt verður að því að uppfæra fréttir og tilkynningar daglega. Þriðja hlutanum verður seint lokið en ætlunin er að gera þeim hluta góð skil sem komi til með að nýtast heimamönnum jafnt sem ferðamönnum.

Umsjónarmenn vefjarins eru Sigurður Marinó Þorvaldsson og Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri en til að vefurinn verði lifandi og fjölbreyttur er vonast til að íbúar sem og aðrir veiti liðsinni og bendi á atburði sem telja má fréttnæma eða frásagnarverða á þessum vettvangi.  Rétt er að hafa í huga, að smáfréttir úr mannlífinu (nú eða dýralífinu) geta verið alveg eins merkilegar og stórfréttir – og oft skemmtilegri. Allar ábendingar eru vel þegnar og senda inn stafrænar myndir netleiðis til umsjónarmanna á netföng þeirra. Jafnframt er nauðsynlegt að lesendur vefjarins séu vakandi yfir hvers konar villum og missögnum og láti vita af þeim, svo að laga megi og leiðrétta.  Þar má líka nefna ábendingar um óvirka tengla.

Þegar nýjar undirsíður verða opnaðar og nýir efnisþættir líta dagsins ljós verður þess að öllum jafnaði getið í fréttahluta vefjarins. Notendur í Strandabyggð þurfa samt alltaf að hyggja vel að reitnum þar sem tilkynningar af margvíslegu tagi verða birtar. Rétt er líka að vekja athygli á atburðadagatalinu (almanakinu) hægra megin. Þegar smellt er á dökkbláa daga birtast upplýsingar um fundi eða mannfagnaði eða aðra viðburði sem umsjónarmenn vefjarins hafa fengið vitneskju um.