29/03/2024

Strandabyggð gerir styrktarsamninga við félög

Fyrir nokkru var skrifað undir styrktarsamning til þriggja ára milli Félags eldri borgara í Strandasýslu og sveitarfélagsins Strandabyggðar, þar sem kveðið er á um fjárhagslegan stuðning Strandabyggðar við félagið. Nú hefur verið skrifað undir þrjá slíka samninga til viðbótar og er þar um að ræða þriggja ára styrktarsamninga við Ungmennafélagið Geislann, Skíðafélag Strandamanna og Leikfélag Hólmavíkur. Allir eru samningarnir til þriggja ára og er í þeim kveðið á um fjárstuðning, ásamt endurgjaldslausri aðstöðu til tiltekinna æfinga, viðburða og sýninga. Auk þess taka félögin að sér umsjón með ákveðnum verkefnum og viðburðum fyrir sveitarfélagið.

Skrifað var undir samningana í síðustu viku af forsvarsmönnum félaganna og Ingibjörgu Valgeirsdóttur sveitarstjóra Strandabyggðar, auk þess sem Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi sem undirbjó samningagerðina var viðstaddur.

Keli

Rósmundur Númason skrifaði undir fyrir hönd Skíðafélags Strandasýslu. Félagið hefur verið öflugt síðustu árin og margir skíðagöngugarpar á Ströndum hafa verið framarlega á landsvísu. Ungmennastarfið hefur verið sérstaklega öflugt og Skíðafélagið stendur árlega fyrir Strandagöngunni sem er stærsti íþróttaviðburðurinn á Ströndum.

Jóhann Áskell Gunnarsson gjaldkeri Ungmennafélagsins Geislans undirritar samninginn fyrir hönd félagsins. Geislinn stendur fyrir öflugu ungmennastarfi og íþróttaæfingum í sveitarfélaginu og hefur einnig umsjón með 17. júní skemmtun á Hólmavík.

frettamyndir/2012/640-samningar2.jpg

Kristín Sigurrós Einarsdóttir formaður Leikfélags Hólmavíkur undirritar samninginn fyrir hönd Leikfélagsins. Leikfélagið hefur verið einstaklega kraftmikið síðustu árin og mikil áhersla á ungmennastarf eins og í hinum félögunum. Með samningnum tók Leikfélagið m.a. að sér nauðsynlegar framkvæmdir til úrbóta á sviði í félagsheimilinu á Hólmavík hvað varðar lýsingu og drapperingar.

– ljósm. Jón Jónsson