10/09/2024

Stóra upplestrarkeppnin á Ströndum

Á morgun, miðvikudag, verður stóra upplestrarkeppnin haldin á Ströndum. Keppnin fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefst hún kl. 17:00. Fjórtán þátttakendur í 7.bekk frá þremur skólum í Strandasýslu taka þátt í keppninni og verður lesið í þremur umferðum. Eftir það velur fimm manna dómnefnd keppendur í þrjú verðlaunasæti og hljóta þeir peningaverðlaun frá Sparisjóði Strandamanna. Auk þess hljóta allir þátttakendur veglegar viðurkenningar. Boðið verður upp á kaffiveitingar, á vegum foreldra nemenda í 7.bekk Grunnskólans á Hólmavík og Mjólkursamsalan gefur yngstu kynslóðinni kókómjólk.

Stóra upplestrarkeppnin er þróunarverkefni sem hófst við grunnskóla Hafnarfjarðar og á Álftanesi árið 1996 en er nú árlegt verkefni sem nær til alls landsins eða til um 140 skóla á landinu. Markmið Stóru upplestrarkeppninnar er að þjálfa nemendur í vönduðum flutningi og framburði íslensks máls.  

Allir eru velkomnir á viðburðinn og því eru Strandamenn hvattir til að fjölmenna í félagsheimilið á Hólmavík.