20/04/2024

Steypireyður strandaði í Hveravík

Fimmtán metra löng steypireyður synti í strand í Hveravík í Steingrímsfirði á mánudaginn. Stjórnaði Hannes Leifsson aðalvarðsstjóri hjá lögreglunni á Hólmavík aðgerðum við að koma henni til bjargar eftir samráð við héraðsdýralækni á Vestfjörðum. Frá þessu var sagt á ruv.is. Hannes segir að steypireyðurin hafi verið afar kraftmikil, en komið var böndum á hana og tveir bátar drógu dýrið á haf út. Eftir smá hamagang náðist að toga hvalinn af stað, en hann synti síðan aftur upp í fjöru. Aftur var komið böndum á hann og siglt lengra út á Steingrímsfjörðinn áður en honum var sleppt.

Steypireyður er stærsta spendýr jarðarinnar og verður 30 metra löng fullvaxin. Tegundin er talin í útrýmingarhættu og hefur verið alfriðuð frá 1966.