19/04/2024

Smári Gunnars gegn Höskuldi!

Tippleikur strandir.saudfjarsetur.is heldur áfram af fullum krafti nú um helgina en Höskuldur B. Erlingsson hefur nú sigrað í leiknum tvær helgar í röð. Guðmundína Haraldsdóttir, sem tapaði naumlega fyrir Höskuldi um síðustu helgi, skoraði á Smára Gunnarsson (málara Grímssonar) að reyna sig við Höska, en Smári er þessi misserin við nám í Danaveldi. Höskuldur hrósar Smára fyrir góða hegðun í gamla daga en er ekki jafn glaður yfir áhuga hans á fótboltaklúbbnum Liverpool. Smári skýtur hins vegar nettum skotum á Höskuld (sem hann kallar Skulda) í óhefðbundnu bundnu máli. Báðir barma sér mjög yfir því hversu erfiður seðillinn er í þetta skiptið, en þeir eru ósammála um sjö leiki. Bráðskemmtilegar spár kappanna má sjá hér:

1. Noregur – Tékkland
 
Höski: Já, það er nú það. Norðmenn voru að fá grænt ljós á það að mega nota völlinn sem er búinn að vera í slæmu ástandi og gúmmítékkarnir kolvitlausir yfir því að þurfa að spila á ónýtum velli. Norðmennirnir frændur okkar græða á þessu og vinna leikinn. Tákn: 1.
 
Smári: Það er komið að þessu. Norsararnir hafa nú verið alræmdir fyrir það í gegnum tíðina að spila leiðinlegan fótbolta, sem er nú skrýtið því það er svo skemmtilegt að heyra þá tala…maður hefði haldið að allt sem þeir tækju sér fyrir hendur væri skemmtilegt og fyndið. Enginn Solskjaer og Tékkland reynist vera eitt fjall sem Norsarar geta ekki borað göng í gegnum. Nedved skorar frá miðju með bylmingskoti. Tákn: 2.
 
+++
 
2. Sviss – Tyrkland
 
Höski: Tja… það er nú það. Tyrkir eru alltaf sprækir finnst mér og mér hefur aldrei fundist Sviss neitt sérstakt lið. En bæði lið hafa verið að gera það ágætt í undankeppninni fyrir HM 2006. Æi… ég veit ekki… það er freistandi að segja jafntefli en ég ætla að veðja á alla þessa Halim Al kalla frá Tyrklandi. Tákn: 2.
 
Smári: Ég sá leik í Champions League um daginn þar sem markmaður Tyrkneska liðsins kinksaði svo svakalega að það var sprenghlægilegt. Við horfðum á leikinn inni á tyrkneskum veitingastað og ég óttaðist mér yrði haldið eftir á veitingastaðnum fyrir að veltast um gólfið í hláturskasti, annað Tyrkjarán. Ég geng samt út frá því að hann verði ekki í markinu á laugardag og þetta verði markalaust jafntefli. Tákn: X.
 
+++
 
3. Spánn – Slóvakía
 
Höski: Slóvakía náði 0-0 jafntefli á móti Rússum í síðasta mánuði sem kom þeim í umspil um sæti í heimsmeistarakeppninni, en nokkrir leikmenn Slóvaka spá því að þeir nái jafntefli á móti Spánverjum. Ég er ekki sammála því. Spánverjar taka þetta, það er ekki spurning. Tákn: 1.
 
Smári: Þetta verður eins og ferð á ströndina hjá Spánverjum, búa til sandkastala úr Slóvökum og hafa það huggulegt. Spanjólarnir hafa sjaldan verið sterkari…ungir, sprækir strákar innan um reynslubolta. Þjálfari Slóvaka reykir karton af sígó á meðan leiknum stendur. Tákn: 1.
 
+++
 
4. Argentína – England
 
Höski: Yessss… nú verður hörkuleikur. Reyndar á hlutlausum velli í Genf, en samt það er líklegra að það verði fleiri Englendingar á þessum leik en Argentínumenn. Þessi lið hafa bitist lengi. Ég hef alltaf haldið með Argentínu á HM, svo að ég veðja nú á þá. Tákn: 1.
 
Smári: Váááááá….þetta verður rosalegt. Efnahagurinn hjá Argentínu hlýtur að taka kipp við þennan leik. Ég hef ekki séð Argentínu spila í langan tíma en ég sá Englendingana um daginn og þeir voru mjög ferskir. Ég held samt að rigningarvanir Englendingar ráði ekki við suðræna loftslagið…Beckham verður pottþétt rekinn útaf! Tákn: 1.
 
+++
 
5. Frakkland – Þýskaland
 
Höski: Þjóðverjar hafa aftur Michael Ballack og hinn eitraða framherja Miroslav Klose í sínum röðum þegar þeir heimsækja Frakka. En Þjóðverjar eru búnir að vera frekar slappir upp á síðkastið. Síðasti sigur þeirra á móti “stórri” fótboltaþjóð, var á Englendingum 1-0 á Wembley í október 2000. Þjóðverjar eiga ekki sjens með Silvestre í vörninni. Skítt með Henry í sókninni, en Þjóðverjar komast ekki framhjá mínum manni Silvestre. Tákn: 1.
 
Smári: Hahaha…Það má ganga að því vísu að enska verður ekki gerð að official tungumáli leiksins. Verða sennilega 3 mál í gangi… Bæði löndin telja sig vera miðpunkt alheimsins og döbba ennþá bíómyndir þannig að það er nóg að gera hjá Hasselhoff og Depardiou. Þetta verður leikur mikilla misskilninga…2-3 rauð spjöld vegna tungmálaörðugleika. Cisse setur samt 2 og klárar dæmið. Tákn: 1.
 
+++
 
6. Holland – Ítalía
 
Höski: Ítalir spila án margra sinna bestu manna á meðan að Ruud Van Nistelrooy er ekki með Hollendingum. Þetta er snúið. Ég held að þetta endi sem jafntefli. Tákn: X.
 
Smári:  Þessi leikur lyktar af hasskökum, pizzum og jafntefli. Skora líklegast sitt hvort markið, Marco Van Basten fyrir Holland og Roberto Baggio fyrir Ítalíu. Tákn: X.
 
+++
 
7. Skotland – Bandaríkin
 
Höski: Skotar eru nú ekkert sérstakir í fótbolta. Hafa ekki verið góðir síðan Gordon Strachan (sem var ManUtd maður) var og hét. Og hana nú. En vá maður, Bandaríkin, þeir kunna ekkert í fótbolta. Humm, 2 léleg lið. Bíður upp á jafntefli. Tákn: X.
 
Smári: Ég er að fara til Bandaríkjanna á mánudag og reikna ekki með að heyra mikið um þennan leik þar þrátt fyrir að þeir vinni arfaslaka Skota á útivelli. Tákn: 2.
 
+++
 
8. Portúgal – Króatía
 
Höski: Ronaldo tekur þá í bakaríið. Búið. Tákn: 1.
 
Smári: Þetta verður mikill markaleikur. Bæði lið með skelfilegar varnir og fína sóknarmenn. Ef Ronaldo passar sig á skvísunum þá verður hann sprækur og setur 2. Tákn: X.
 
+++
 
9. Hartlepool – Brentford
 
Höski: Hvernig á maður að geta spáð um svona lið.  Þetta eru lið í 3 deild. Í guðanna bænum, hvers vegna er svona lagt á mann. Brentford vinnur. Tákn: 2.
 
Smári: Vissi einhver að þessi lið eru í annarri deild?? Allavega…þá held ég að þetta verði jafnteflisleikur. Bæði lið búin að gera 5 jafntefli í deildinni og ætli þau haldi ekki bara því áfram. Eifion Williams er búinn að vera sjóðheitur fyrir Hartlepool og hann skorar líklegast bæði mörk leiksins. Tákn: X.
 
+++
 
10. Bournemouth – Nott. Forest
 
Höski: Ekki fer það skánandi. Lið í 11. og 10. sæti 3 deildar. Heimasigur. Tákn: 1.
 
Smári: Ég hef nú alltaf haft gaman af Nottingham mönnum, veit nú ekki af hverju…þeir hafa aldrei getað neitt og eru í ljótum búningum. Þeir voru sprækir þegar Collymore var þar en þeir eru alveg á berginu núna sko. Chris Kimmons reyndar komin með 4 mörk í deildinni en það er því miður það helsta sem þeir geta státað af núna. James Hayter skorar með skalla fyrir Bournemouth. Tákn: 1.
 
+++
 
11. Walsall – Gillingham
 
Höski: Já, já, já, jafntefli. Tákn: X.
 
Smári: Mér finnst eins og það hafi verið íslenskir leikmenn í öllum þessum annarar deildar liðum hérna á seðlinum, ég veit ekki hvort maður eigi að lesa eitthvað út úr því. Walsall menn borða Fish and chips í öll mál og yfirbuga Gillarana. Rúst Hilmir Snær style. Tákn: 1.
 
+++
 
12. Peterborough – Leyton Orient
 
Höski: Lengi getur vont versnað. Nú erum við látnir tippa á lið í 4.deild. Ja, hérna. Veit ekkert um þessi lið, annað en það að samkvæmt töflunni er Leyton í fyrsta sæti 4 deildar. Gott hjá þeim. Tákn: 2.
 
Smári: Hahahahaaa…3. deild. Ef að Höskuldur veit eitthvað um þetta þá býð ég honum upp á pulsu og kók. Þetta er svona Geislinn vs Neistinn eitthvað. Ef að leikurinn er útá Drangsnesi þá er þetta útisigur. Hrólfur Guðmunds trítilóður á línunni vegna heimadómgæslu sem gefur okkur byr undir báða vængi. Tákn: 2.
 
+++
 
13. Chester – Northampton
 
Höski: #$%&/()(/&%$#”!! Chester vinnur. Tákn: 1.
 
Smári: Fæ það á tilfinningu að þetta séu tvö svona trúðalið, Leslie Nielsen og Chevy Chase eru knattspyrnustjórarnir og liðin voru skýrð með vísun í Manchester og Southampton. Verða mikil trúðalæti þarna en eins og í öllum myndum með þeim þá eru allir vinir í lokin. Tákn: X.
 
+++
 
Höski: Jæja, þar kom að því að maður er alveg orðlaus.  Seðillinn er sá erfiðasti sem að ég hef séð lengi. Ég held að í þessu tippi þá geti hver sem er unnið, jafnvel Íslendingur erlendis. Þarna er um að ræða vináttulandsleiki og þá er ekki hægt að stóla á. Allir fá að spila og ekki  er nokkur leið að segja til um úrslit. En jæja, maður verður að reyna. Og andstæðingurinn, aftur íslenskur útlendingur, og ekki bara það… íslenskur útlendingur, Strandamaður og aftur fyrrverandi unglingur á mínu fyrrum eftirlitssvæði. Og ekki var hann Smári að brjóta útivistarreglurnar eins og fyrrum keppandi hér. Ónei, alltaf svo ljúfur og góður elsku drengurinn. Á ekki von á að það hafi breyst. En honum verður samt ekki sýnd nein miskunn hér. Ekki Púlara… Nú verður tekið á því sem aldrei fyrr.
 
Smári: Ég hef nú ekkert verið sérstaklega þekktur fyrir að komast í kast við lögin í gegnum tíðina…en það er alveg kominn tími á það. Reikna ég nú bara með því að rústa Höskuldi og verður það gríðarlega gaman eins alltaf þegar Liverpool vinnur United. Stoppa sigurgönguna hans, sting hann af og tek enga fanga… Kærlig hilsen fra Danmark!
 
Sigurinn er vís
Lokað og læst
Á Íslandi er kuldi
 
Sigur þinn, hahaha
 
Væri algjör grís
Gangi þér betur næst
Skuldi