14/10/2024

Smábátafélagið Strandir vill tilheyra veiðisvæði B

Frá því er sagt á bb.is að smábátafélagið Strandir á Hólmavík vill láta breyta strandveiðisvæðum á þann veg að austurhluti A-svæðis verði við Horn en ekki Skagabyggð. Strandir myndu við það tilheyra svæði B sem félagsmenn vilja að nái að Tröllaskaga. Bent er á að veðurfarið sé svipað á Ströndum og á Norðurlandi vestra, en ólíkt því sem er í Breiðafirði og á Vestfjörðum, þessu til rökstuðnings. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins fyrir skemmstu. Á fundinum komu fram miklar áhyggjur vegna afleiðinga af niðurskurði á veiðiheimildum í ýsu og hækkun á geymslurétti milli ára. Engan ýsukvóta væri hægt að fá, enginn vilji láta frá sér ýsu. Til að koma í veg fyrir að bátar stöðvist vegna vöntunar á ýsu sem meðafla við þorskveiðar samþykkti fundurinn svohljóðandi ályktun:

„Aðalfundur Stranda hvetur Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að bregðast strax við því ófremdarástandi sem upp er komið í ýsuveiðum. Strandir skora á ráðherra að koma í veg fyrir þessi vandamál með því að setja í reglugerð að ýsa veidd á línu fram til næstu áramóta reiknist ekki til afla- eða krókaaflamarks hvers báts þar sem viðmiðunin verði 30% af ýsuafla viðkomandi á sl. fiskveiðiári.

Í greinargerð með ályktuninni kemur fram að í nokkra mánuði hefur ekki verið hægt að fá leigðar veiðiheimildir ýsu. Afleiðingar þess eru að fjöldi báta verður að stöðva veiðar á næstu dögum án þess að vera komnir í kvótaþurrð í öðrum tegundum. Við það minnkar framboð á línuveiddri ýsu, verðmæti lækkar, auk þess sem sjómenn og beitningafólk missir atvinnuna.“