Categories
Frétt

Skráning hafin í Spurningakeppni Strandamanna

1Nú er undirbúningur hafinn fyrir Spurningakeppni Strandamanna 2009, en það er að venju Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir keppninni. Þetta er í sjötta skipti sem keppnin fer fram. Keppt verður í Félagsheimilinu á Hólmavík sunnudagskvöldin 15. og 29. mars og 5. og 19. apríl að öllu óbreyttu. Spyrill, dómari og spurningahöfundur verður Arnar S. Jónsson frá Steinadal. Þrír einstaklingar þurfa að vera í hverju liði sem má vera frá fyrirtæki, félögum, saumaklúbbum, sveitarfélögum o.s.frv. Tekið er á móti skráningum í netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is, en skráningarfrestur er til sunnudagsins 1. mars.

Að sögn Arnars verður keppninni breytt örlítið til að gera hana léttari og skemmtilegri, t.d. verða hraðaspurningar með breyttu sniði og ekki er ósennilegt að keppnisliðin þurfi að bregða á leik í fyrstu umferð keppninnar.

Arnar vill einnig koma því á fram færi að væntanleg keppnislið ættu að skrá sig til þátttöku sem allra fyrst því hámarksfjöldi liða er sextán. Fyrstir koma – fyrstir fá!