20/04/2024

Skákhátíð í Árneshreppi 20. júní

Frá skákmótinu í Djúpavík í fyrraJóhann Hjartarson stórmeistari, stigahæsti meistari íslenskrar skáksögu, verður meðal keppenda á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík, sem haldið verður í Djúpavík laugardaginn 20. júní. Athygli er vakin á því að Minningarmót Guðmundar tekur aðeins einn dag, en að skákhátíðin í Árneshreppi stendur hins vegar frá föstudegi til sunnudags og eru allir velkomnir, ungir og aldnir, Strandamenn og stórmeistarar.

Af öðrum keppendum á mótinu í Djúpavík laugardaginn 20. júní má nefna stórmeistarana Henrik Danielsen og Þröst Þórhallsson, alþjóðameistarana Arnar Gunnarsson og Björn Þorfinnsson, Róbert Harðarson FIDE-meistara og Gunnar Björnsson forseta Skáksambandsins. Vonir standa til að Djúpavíkurmeistarinn 2008, Helgi Ólafsson, verði með, auk þess sem von er á áhugamönnum á öllum aldri og úr öllum áttum.

Mótið er öllum opið og er þátttaka ókeypis. Keppendur eru hvattir til að skrá sig sem fyrst. Hægt er að bóka gistingu í samráði við skipuleggjendur eða á eftirtöldum stöðum:
·         Hótel Djúpavík, sími 451 4037
·         Gistihúsið Norðurfirði, sími 554 4089
·         Gistihúsið Bergistangi, Norðurfirði, sími 4514003
·         Finnbogastaðaskóli (svefnpokapláss og tjaldstæði), sími 4514012

Dagskrá Skákhátíðarinnar í Árneshreppi hefst í Djúpavík föstudagskvöldið 19. júní með setningarathöfn og tvískákarmóti – en það er mjög skemmtilegt listform þar sem tveir eru saman í liði.

Laugardaginn 20. júní klukkan 12 hefst aðalviðburður helgarinnar í Djúpavík: Minningarmót Guðmundar Jónssonar í Stóru-Ávík. Mótinu lýkur síðdegis með verðlaunaafhendingu og grilli. Verðlaun eru sannarlega glæsileg. Auk 100 þúsund króna verðlaunapotts eru fjöldi góðra vinninga. Þar má nefna skúlptúr eftir Guðjón frá Dröngum, listmun eftir Valgeir í Árnesi, siglingu fyrir tvo norður að Horni, silfurnisti eftir Jóhönnu í Árnesi, gistingu í Norðurfirði, Hótel Djúpavík og sundlaugarhúsinu Krossnesi, landsins besta lambakjöt frá Melum, slæður frá Persíu og Arabíu, hannyrðir Selmu á Steinstúni, málsverð fyrir tvo í Kaffi Norðurfirði,  og bækur frá JPV-útgáfu og Skugga.
 
Á sunnudeginum klukkan 13 er svo komið að hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði. Eins og fyrri daginn eru þar allir hjartanlega velkomnir, hvort sem er til að tefla eða sýna sig og sjá aðra. Þátttaka er ókeypis.

Með hátíðinni núna vilja aðstandendur mótsins heiðra minningu Guðmundar Jónssonar í Stóru-Ávík, sem jafnan var hrókur alls fagnaðar á skákþingum einsog öðrum mannmótum. Í þessu skyni eru leiddir saman heimamenn og gestir, strákar og stelpur, mjóir og feitir, ungir og gamlir. Allt í samræmi við kjörorð FIDE og Hróksins: Við erum ein fjölskylda.

Sett hefur verið upp Facebook-síðan Skákhátíð í Árneshreppi á Ströndum.

Upplýsingar og skráning:
Róbert Lagerman, chesslion@hotmail.com, sími 6969658
Hrafn Jökulsson, hrafnjokuls@hotmail.com, sími 4514026.