20/04/2024

Síldarverksmiðja verður Skákhöll: Tveir efstir í Djúpavík

Skáksalurinn í DjúpavíkHelgi Ólafsson og Arnar Gunnarsson eru efstir og jafnir eftir 4 umferðir á Minningarmóti Páls Gunnarssonar sem Hrókurinn heldur í Djúpavík. Róbert Harðarson er í 3. sæti, en alls eru keppendur á mótinu hátt í 60 talsins. Meðal keppenda eru meistarar, bændur, börn og áhugamenn af öllum stigum. Teflt er í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík og hefur gömlu mjölgeymslunni verið breytt í glæsilegan skáksal. Við upphaf mótsins var Guðmundur Þorsteinsson á Finnbogastöðum heiðraður með taflborði, árituðu af Gary Kasparov. Guðmundur sem á mánudaginn missti hús sitt, eignir og innbú í stórbruna er meðal keppenda á mótinu og hefur staðið sig með prýði.

Mótið heldur áfram í dag klukkan 13:00 og þá verða tefldar 5 umferðir. Sigurvegarinn fær 100 þúsund krónur í sinn hlut og verðlaunagrip úr rekaviði eftir Valgeir Benediktsson í Árnesi. Búast má við æsispennandi keppni á mótinu í Djúpavík í dag, enda eru veitt verðlaun í mörgum flokkum.

Staðan efstu manna, eftir 4 umferðir: 1.-2. eru Helgi Ólafsson og Arnar Gunnarsson með 4 vinninga. 3 er Róbert Harðarson með 3,5 vinning, 4.-11. eru Simon Bekker-Jens, Jakob Vang Glud, Guðmundur Kjartansson, Espen Lund, Björn Þorfinnsson, Hrannar Jónsson, Pétur Atli Lárusson og Hilmar Þorsteinsson, 12. er Grímur Grímsson með 3 vinninga, 13.-15. eru Birgir Berndsen, Eiríkur Björnsson, Henrik Danielsen með 2,5 vinning.

Samhliða skákmótinu hefur verið sett upp sýning á málverkum Kormáks Bragasonar og þá er til sýnis glertafl unnið af Maríu Þorláksdóttur.

Nánari upplýsingar á www.hatid2008.blog.is.