12/11/2024

Sigurður Atlason formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða

Sigurður Atlason, framkvæmdastjóri Strandagaldurs, var kjörinn formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða á aðalfundi samtakanna sem haldinn var á Drangsnesi í gær. Hann tekur við af Sævari Pálssyni frá Hótel Flókalundi, sem gegnt hefur formennskunni undanfarin fjögur ár eða frá aðalfundi samtakanna á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði árið 2005. Sævar gaf kost á sér til setu í stjórninni til eins árs og situr því áfram í henni. Ný inn í stjórnina komu Sigurður Arnfjörð frá Hótel Núpi í Dýrafirði og Ester Rut Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Melrakkaseturs Íslands í Súðavík.


Áslaug S. Alfreðsdóttir frá Hótel Ísafirði situr áfram í stjórn ásamt Birni Samúelssyni frá Eyjasiglingum á Reykhólum en þau voru kjörin til tveggja ára á síðasta aðalfundi á Reykhólum fyrir ári síðan. Keran Stueland Ólason frá Ferðaþjónustunni í Breiðavík gaf kost aftur kost á sér í stjórnina og var kjörinn á ný.

Frekari upplýsingar um fundinn er að finna á vefsíðu Ferðamálasamtaka Vestfjarða á slóðinni http://www.vestfirskferdamal.is,