Categories
Frétt

Sameiningu ráðuneyta mótmælt

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda hefur mótmælt fyrirhuguðum breytingum á
skipulagi Stjórnarráðsins sem fela í sér sameiningu iðnaðar-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Er þessi breyting fyrirhuguð á næsta ári samkvæmt fréttum. Segir í fréttatilkynningu sem birt er á saudfe.is að stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda telji afar óskynsamlegt að leggja niður landbúnaðar- og
sjávarútvegsráðuneytið nú af tveimur meginástæðum:


– Í fyrsta lagi liggur
fyrir að landbúnaður og sjávarútvegur munu á næstu árum gegna mikilvægara
hlutverki en nokkru sinni fyrr við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og afla
gjaldeyristekna til að standa undir þeim skuldbindingum sem þjóðin hefur
tekist á hendur. Það er því frekar þörf á því að leggja meiri áherslu á
þennan málaflokk en hitt. Það boðar ekki gott að í drögum að nýrri
byggðaáætlun sem iðnaðarráðuneytið hefur sent frá sér er ekkert fjallað um
landbúnað og sáralítið um sjávarútveg.

– Í annan stað þá er það þekkt
staðreynd að sameining og endurskipulagning ríkisstofnana tekur verulegan
tíma og orku frá öðrum verkefnum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin
voru sameinuð í eitt árið 2007 en það var fyrst á þessu ári sem að hið
sameinaða ráðuneyti flutti undir eitt þak. Að byrja nýja sameiningu nú væri
fráleitt, ekki síst á sama tíma og stjórnvöld hafa sótt um aðild að
Evrópusambandinu þar sem sjávarútvegur og landbúnaður verða umfangsmiklir og
erfiðir málaflokkar við að fást. Að ætla sér að vera að endurskipuleggja
ráðuneytið á sama tíma og það þarf að geta notað alla sína orku í að verja
hagsmuni Íslands mun aðeins valda
málaflokkum þess tjóni.